Adobe Syrah 2014

Vínhúsið Emiliana í Chile sem að framleiðir Adobe-línuna er einn stærsti framleiðandi lífrænna vína í heiminum og þar er að auki stundaður lífefldur eða “biodynamic” landbúnaður.

Syrah er þrúga sem alltaf er að koma betur og betur í ljós hversu vel hentar aðstæðum í Chile. Þetta rauðvín er gert úr þrúgum frá Rapel sem er stórsvæði er nær til Colchagua og Calchapoal í miðdalnum suður af Santiago.

Það er ekki langt síðan að við smökkuðum 2013 árganginn af þessu víni og já þetta ár sem þar skilur á milli skiptir máli. Vínið er áberandi yngra, ekki búið að hlaupa enn af sér hornin eins mikið, það þarf að gefa því tíma til að opna sig og mýkjast. Svartur ávötur, sólber og kirsuber, nokkuð kryddað, ferskar kryddjurtir, sem verða meira áberandi, ekki síst mynta, eftir því sem vínið fær meiri tíma. Kröftugt, nokkuð tannískt, með bragðmiklum grillmat, ekki of sætum sósum.

1.999 krónur. Frábær kaup á því verði. Hálf auka stjarna fyrir hlutfall verðs og gæða.

Deila.