Vínvegurinn í Alicante

Strendurnar á Costa Blanca hafa gífurlegt aðdráttarafl og það sama má segja um golfvellina þar í kring. Það getur hins vegar verið leiðigjarnt að gera ekkert en að liggja á ströndinni og/eða spila golf og því ekki úr vegi að huga að annarri afþreyingu, s.s. að kynna sér betur sögu og vínmenningu þessa svæðis. Sumir strandbæirnir kunna vissulega að vera karakterlitlir, svæðið sem slíkt er hins vegar iðandi af sögu og menningu. Þarna hefur t.d. verið ræktað vín frá örófi alda eða um tveggja árþúsunda skeið. Og þótt Alicante-vínin sem mörg veitingahúsin við ströndina bjóða upp á sé ekki rismikil þá er margt spennandi að gerast á svæðinu og þarna er hægt að finna virkilega flott vín.

 

Auk rauðvína, hvítvína og rósavína framleiða sum vínhúsin Fondillon, vín sem er algjörlega einstakt fyrir Alicante. Þessi vín eru yfirleitt nokkuð sæt, framleidd úr mjög þroskuðum Monastrell-þrúgum. Þau minna á púrtvín eða sérrí en eru þó ekki styrkt. Alla jafna eru þau geymd að minnsta kosti áratug á tunnum, annað hvort sem árgangsvín eða í svokölluðu solera-kerfi þar sem árgöngum er blandað saman á milli tunna.

Fyrr á öldum voru Fondillon með eftirsóttu vína heims, margfalt dýrari en bestu portvín og Madeira og báru hróður Alicante-vínanna um allan heim. En svo kom rótarlúsin phylloxera, sem olli svo miklum usla í evrópskri vínrækt á nítjándu öld. Í tvígang þurrkaði hún út vínrækt Alicante og þar með framleiðslu á Fondillon. Það er fyrst á síðustu árum sem Fondillon-framleiðslan er að taka við sér á ný og þessi vín smám saman að öðlast fyrri sess.

Það er því um að gera að kynna sér þetta vínræktarsvæði ef þið eruð á svæðinu. Við höfum t.d. áður fjallað um vínin frá Enrique Mendoza eftir heimsókn þangað í fyrra og einnig er ástæða til að rifja upp vín á borð við Mo Monastrell sem fáanleg voru í vínbúðunum til skamms tíma og nutu töluverðra vinsælda.

Það er ekki nema rúmlega hálftíma akstur inn í land frá Alicante eða Torrevieja þangað til komið er inn í hjarta vínræktarinnar á svæðinu. Best er að taka stefnuna á þorpið Villena (borið fram Víjena) en þar í kring er til dæmis að finna lítil og virkilega athyglisverð vínhús á borð við Vinessens en einnig stærri vínhús á borð við Bodegas Francisco Gomez sem hafa lagt mikið upp úr því að taka á móti gestum með stæl.

Sé haldið aðeins lengra inn í land er komið að hinu nútímalega Sierra Salinas sem er einmitt vínhúsið sem framleiðir eitt af uppáhaldsvínum okkar á svæðinu, hið unaðslega Mo sem minnst var á áðan. Þetta er fyrst og fremst rauðvínssvæði og þarna er þrúgan Monastrell (Mourvédre) í essinu sínu rétt eins og á nágrannasvæðunum Jumilla og Yecla sem eru í örfárra kílómetra fjarlægð. Þangað er líka hægt að fara í þægilegri dagsferð.

En svo er auðvitað líka hægt að staldra aðeins við í Villena og átta sig á þeirri miklu sögu sem þetta svæði geymir. Þarna hefur verið byggð allt frá því á bronsöld og um miðja síðustu öld fannst einstakur fjársjóður grafinn í jörðu fyrir þúsundum ára, gullskálar og gersemar. Fjársjóðurinn (sá merkasti sem fundist hefur á Spáni) er til sýnis í byggðasafninu. Sömuleiðis er hægt að skoða Atalaya-kastalann sem trónir yfir bænum og Márar byggðu á 12. öld.

Og ekki gleyma að borða. Þarna eru mörg frábær veitingahús, t.d. Warynessi sem leggur mikið upp úr því að endurskapa hina sígildu rétti svæðisins.

Deila.