Bomburnar í Barceloneta

Ef einhver einn tapas-réttur er einkennandi fyrir Barcelona er það líklega la bomba eða sprengjan. Katalónía var eitt af höfuðvígjum lýðveldissinna í spænsku borgarastyrjöldinni á fjórða áratugnum og eitt af helstu vopnum þeirra gegn hermönnum Francos voru sprengjukúlur, ekki ólíkar þeim sem að lesendur Tinna-bókanna þekkja svo vel, járnkúlur með stuttum sprengiþræði fylltar af sprengiefni.

Það var í hverfinu Barceloneta sem að la bomba varð til um svipað leyti þegar að  Maria Pla sem rak veitingahúsið La Cova Fumada fékk þá hugmynd að búa til kúlur úr kartöflumauki og kjöti sem að hún steikti og bar síðan fram með tveimur sósum sem áttu að merkja sprengiþráðinn. Annars vegar hvíta aioli-sósu og hins vegar rauða, sterkkryddaða brava-sósu. La bomba var fædd.

Enn í dag eru nokkur hundruð bombur bornar fram í La Cova Fumada og öðrum litlum veitingahúsum í Barceloneta. Þetta gamla verkamanna- og sjómannahverfi hefur nú gengið i endurnýjun lífdaga vegna vinsælda strandarinnar í Barcelona sem voru færðar í núverandi mynd í tengslum við þá miklu uppbyggingu sem átti sér stað í borginni í tengslum við ólympíuleikana árið 1992.

Flestir ferðamenn sem fara á ströndina fara hins vegar á mis við það sem Barceloneta hefur upp á að bjóða. Þeir rölta meðfram smábátahöfninni eða strandlengjunni og kíkja kannski inn á strandbarina eða chiringuitos sem þar er að finna eða þá veitingahúsin á aðalgötunni sem keppast við að lokka inn gesti.

Með því að beygja inn í þröngu hliðargöturnar í Barceloneta gengur maður hins vegar inn í annan tíma, annan heim. Hér lifir hin gamla Barcelona enn góðu lífi, litríkur þvotturinn hangir af svölum og af gangstéttinni er opið beint inn í eldhús hjá íbúum hverfisins. Furðulegt nokk eru þarna nær engir ferðamenn á stjái þótt þeir rölti í þúsundavís í nokkurra metra fjarlægð.

Inn í hinum þröngu götum Barceloneta er að finna aragrúa af frábærum litlum tapasstöðum og veitingahúsum. Til dæmis fyrrnefndan La Cova Fumada en einnig La Bombeta, sem margir segja að séu með bestu bombur bæjarins. Það er nær alltaf fullt á La Bombeta en það er þess virði að bíða eftir borði og gæða sér á bombum og öðrum þeim gómsætu tapas-réttum sem þarna eru í boði. Það er iðandi líf á la Bombeta og þótt það standi á skilti á veggnum að hér sé ekki töluð enska reyndust þjónarnir sem þeysast um örlítinn matsalinn, ágætlega færir í þeirri tungu.

Í Barceloneta er líka hægt að fá einhverja bestu sjávarrétti Barcelona og bestu paellurnar. Einhver besta paellan er að sögn heimamanna á Cheriff en einnig á El Suquet de l’Almirall.

Það er því hægt að gera margt vitlausara í Barcelona-heimsókn en eyða smá tíma í Barceloneta. Þeir sem vilja njóta hverfisins til fulls geta gist á hinu nútímalega W-hóteli við enda strandlengjunnar, það hefur ekki bara stórkostlegt útsýni yfir Barceloneta heldur er einnig eitt besta hótel borgarinnar.

Við höfum líka fjallað sérstaklega um chirinquitos-strandbarina á þessu svæði. Lesið um það með því að smella hér. 

 

Deila.