Ferskur Verdejo hjá Val de Vid

Það eru ekki mörg ár frá því að vín frá spænska vínhéraðinu Rueda fóru fyrst að skjóta upp kollinum utan heimahagana. En það má svo sannarlega segja að þau séu að taka heiminn með trompi enda eru Rueda-vínin með flest það sem sótt er eftir í góðu hvítvíni. Þau eru fersk, yfirleitt með flottum sítrusávexti, svolítið míneralísk, þurr og hafa karakter.

Rueda er í Castilla y Leon-héraðinu norðvestur af Madrid, steinsnar frá einu þekktasta rauðvínshéraði Spánar, Ribera del Duero. Aðstæður eru að mörgu leyti ekki ósvipaðar, þetta er hátt uppi á spænsku hásléttunni, flestar ekrur í 700-800 metra hæð yfir sjávarmáli og loftslagið einkennist af miklum sveiflum innan sólarhringsins og milli árstíða.

Þarna hafa vín verið ræktuð í á annað þúsund ár en það var fyrst fyrir rúmum tveimur áratugum síðan sem að víngerðin fór að taka á sig þá mynd sem að hún hefur í dag. Eitt af þekktustu vínhúsum Rioja, Marques de Riscal leitaði um allan Spán að rétta staðnum til að framleiða nútímaleg hvítvín til útflutnings og að lokum varð Rueda fyrir valinu. Einn þekktasti víngerðarmaður Frakka á þeim tíma, Emile Peynaud var fenginn til verksins sem ráðgjafi og hans niðurstaða var að Rueda væri rétti staðurinn og þrúgan sem leggja ætti áherslu á væri Verdejo.

Hún minnir um margt á hina frönsku Sauvignon Blanc, svolitið skörp og sýrumikil, vínin oftast mjög þurr, flott og fersk. Akkúrat það sem flestir vínneytendur í dag eru að leita eftir.

Eitt af bestu vínhúsum svæðisins er Val de Vid. Þetta er ekki stórt hús, á um 20 hektara af ekrum og hefur stjórn á einum 40 hektörum til viðbótar.

José-Antonio Merayo stofnaði vínhúsið árið 1996 og leggur áherslu á nútímalega víngerð þar sem ferskleiki Verdejo er í fyrirrúmi (þótt í einni blöndunni megi einnig finna smotterí af þrúgunni Viura). Vínin eru að mestu leyti flutt út en 90% framleiðslunnar fer á erlenda markaði.

Þetta er eitt af mörgum spænskum vínhúsum þar sem að konur stjórna víngerðinni og segir víngerðarkonan Mila að stíll hússins byggi á því að draga fram hreinleika og ferskleika Verdejo.

Það var uppskerutími þegar að við komum í heimsókn en þrúgurnar eru tíndar að næturlagi til þess einmitt að tryggja ferskleika þeirra sem best. Víngerðin sjálf er líka hæg og við lágt hitastig til að ná sem mestu af ávextinum úr þrúgunum.

Val de Vid framleiðir þrjú vín. Fyrst kemur Rueda-vínið en þar eru um 15% af Viura í blöndunni, ferskt og sítrusmikið, með töluverðum greipávexti. Þá hreint Verdejo, grösugt með nokkrum hitabeltisávexti, fágað og þykkt.  Loks kemur Verdejo-vín sem þar sem vínið liggur að hluta í gerinu á eikartunnum í eina átta mánuði að lokinni víngerjuninni. Eikin er hins vegar ekki mjög áberandi, þarna eru ferskjur og blóm í nefi og þótt eikin nái aldrei yfirhöndinni þá dregur hún fram og ýkir ávöxtinn svolítið.

 

Deila.