Möndlugrauturinn – með súkkulaðisósu

Það er gamall íslenskur siður að borða graut í kringum jólin, og fram á síðustu öld var hann yfirleitt blandaður rúsínum sem þóttu bæði framandi og mikill munaður.  Hér fyrr á öldum var jólagrauturinn úr byggi en í byrjun síðustu aldar var smám saman farið að nota hrísgrjón eftir því sem að þau urðu aðgengilegri. Þessi siður er útbreiddur á Norðurlöndunum og er þá yfirleitt talað um jólagraut eða jafnvel jólasveinagraut (tomtegröt) í Svíþjóð.

Í byrjun síðustu aldar þróaðist síðan í Danmörku afskaplega fínt afbrigði af jólagrautnum sem meiri segja var nefndur upp á frönsku, Riz á’lamande. Uppskrift að slíkum graut er hér. Heldra fólk varð auðvitað að hafa eitthvað aðeins fínna en venjulegan hrísgrjónagraut á borðum.

Möndlugrauturinn íslenski er þó samkvæmt hefðinni ekki alltaf með möndlum að fráskilinni hinni einu sönnu möndlu sem að sá fær möndlugjöfina sem að hreppir. Þessi siður er danskur að uppruna og þaðan barst hann til Skánar í suðurhluta Svíþjóðar, Íslands og meira að segja Noregs.

Siðurinn virðist hafa verið nýr og spennandi þegar að sagt var frá honum í Morgunblaðinu í desember 1938 en það er einhver elsta heimildin sem að við höfum fundið um möndlugraut og möndlugjöf. Þar segir m.a.;

„Sú hefð er líka komin á hjer á landi, að hafa hrísgrjónagraut með möndlu í á aðfangadagskvöld, þó að ekki sje það upprunalega íslenskur siður. Afhýdd mandla er þá sett í grautarskálina, áður en hún er borin inn, og sá, sem hlýtur það hnoss að hreppa möndluna,fær hina eftirsóttu möndlugjöf. En henni er stilt upp einhvers staðar þar sem allir við borðið sjá hana, en enginn veit hvað hún er, nema húsmóðirin, sem hefir valið hana, fyrr en mandlan kemur fram og gjöfin er afhent.“

Klassíski íslenski möndlugrauturinn hennar ömmu er enn borinn fram um hver jól. Sjóðið hrísgrjón (t.d. sérstök grautargrjón – grötris) í vatni og mjólk. Leyfið grautnum að kólna, hann verður að vera þykkur. Blandið þá vel af þeyttum rjóma saman við grautinn og að sjálfsögðu einni möndlu sem verður að vera vel falinn. Það má líka setja rifnar möndlur saman við.Skreytið með rjóma og t.d. rifnu súkkulaði.

Sumir setja grautinn í skálar og möndluna í eina skál – en það þykir svindl á öðrum heimilum. Hluti af hefðinni er að fá þá sem ekki fá möndluna til að borða sem mest af grautnum áður en í ljós kemur hver sá heppni er.

Til að auðvelda átið á grautnum verður auðvitað að hafa súkkulaðisósu með. Bræðið mjólkursúkkulaði í vatnsblaði. Pískið rjóma saman við. Setjið í sósukönnu ásamt vænni skeið af þeyttum rjóma.

Það má svo auðvitað bragðbæta grautinn á ýmsan hátt t.d. með því að sjóða vanillukorn úr vanillustöng með grautnum eða blanda smá vanilludropum saman við rjómann áður en honum er blandað saman við grautinn.

 

Deila.