Blini eru afbrigði af pönnukökum sem eiga sér langa hefð í flestum slavneskum ríkjum og hafa einnig orðið hluti af menningararfi mið-evrópskra gyðinga sem að færðu þær með sér og gerðu vinsælar vestur um haf. Blini úr bókhveiti eru hins vegar fyrst og fremst bundnar við Rússland og Úkraínu og eru ómissandi með góðum kavíar, það er að segja hrognum.
Við höfum áður birt uppskrift af góðum blini hér og fengum síðan á dögunum upp í hendurnar aðra útgáfu sem reyndist alveg hreint frábær.
- 2,5 dl hveiti
- 1,5 dl bókhveiti
- 8 tsk sykur
- 2,5 tsk þurrger
- 1/2 tsk salt
- 5 dl mjólk
- 85 g smjör
- 4 egg, pískuð
Byrjið á því að blanda saman hveiti, bókhveiti, sykri, geri og salti. Setjið mjólk og smjör í pott. Hitið og hrærið í á meðan þar til að mjólkin er orðin rétt rúmlega 40 gráðu heit og smjörið hefur bráðnað. Þeytið mjólkinni nú saman við hveitiblönduna. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið að hefast í um eina og hálfa klukkustund.
Pískið deigið aðeins þannig að það falli og pískið næst eggjunum saman við.
Hitið olíu og smjör á pönnu. Hellið deiginu á pönnuna í litlum skömmtum.
Með blini er algjörlega nauðsynlegt að hafa fínt saxaðan rauðlauk, sýrðan rjóma (notið 36% og pískið smá súrmjólk saman við). Síðan er hægt að hafa margvísleg hrogn, t.d. bleikjuhrogn en einnig reykja bleikju eða lax sem er skorinn í sneiðar.