Trivento – hinn gyllti Malbec Argentínu

Það var í fyrstu ferðinni til vínhéraða Suður-Ameríku árið 2000 sem að Trivento bar fyrst á góma í heimsókn hjá Concha y Toro í Chile. Það kom til tals að næsta stopp á leiðinni væri Mendoza í Argentínu. Þar var chilenski vínrisinn að byggja upp nýtt vínhús og buðust til að skipuleggja heimsókn þangað í leiðinni. Trivento bar þá ekki mikið yfir sér, vínekrurnar höfðu nýlega verið gróðursettar en metnaðurinn var greinilega mikill líkt og í flestu sem Concha y Toro tekur sér fyrir hendur.

Núna þessum sextán árum síðar er Trivento í fimmta sæti vínhúsa í útflutningi og til að mynda það vínhús Argentínu sem nýtur mestra vinsælda í Bretlandi og viðar. Það hefur reist stórt og mikið vínhús í Maipú rétt suðvestur af borginni Mendoza og ræktar nú vín á einum þréttan hundruð hektörum í þremur undirsvæðum Mendoza, Lujan de Cuyo, sem er elsta svæði Mendoza rétt við borgarmörkin og teygir sig þaðan í austur í átt að Andesfjöllum, Miðsvæðinu (Región Centro) sem er umfangsmesta undirsvæðið og loks í Uco dalnum sem er nokkuð suður af Mendoza-borg og er eitt athyglisverðasta svæði héraðsins.

Framleiðsla Trivento er líkt og hjá öllum stærri vínhúsum í nokkrum gæðaflokkum. Byrjunarlínurnar eru kallaðar e Mixtus og Tribú og er það víngerðarmaðurinn Rafael Miranda sem sér um víngerðina þegar kemur að þeim. Hann segir markmið víngerðarinnar vera að hafa vínin ávallt fersk og ávaxtamikil og að þau endurspegli þær þrúgur sem notaðar eru. Mixtus er ávallt blanda úr tveimur þrúgum en Tribú-vínin byggjast ávallt á einni þrúgu. Vinsælasta Mixtus-blandan er úr þrúgunum Chardonnay og Chenin Blanc, hlutfallið er mismunandi milli ára en alla jafna er Chardonnay-hlutfallið um 85%. „Chenin gefur blöndunni sýruna sem er nauðsynleg upp á ferskleikann,“ segir Miranda. Að auki segir hann að í Mixtus-línunni sé reynt að halda áfengismagni í kringum 12,5% til að ná hinu rétta jafnvægi gagnvart sýrunni og tryggja ferskleika vínanna og einkenni þrúgnanna. Þetta eru vín sem á að drekka ung, stíllinn þannig að þau séu mild og aðgengileg. Í rauðu vínunum er það blandan Shiraz-Malbec sem er sú sem nýtur mestrar hylli, vínið mjúkt, sætt í lokinn. Miranda segir hugsunina á bak við blönduna vera að Shiraz gefi rauða ávöxtinn, sýruna og ferskleikann en Malbec sætuna. „Það eru tvær þrúgur sem henta einstaklega vel í blöndur með Malbec, það er annars vegar Shiraz og hins vegar Bonarda.# Þrúgurnar í vínin koma frá mismunandi svæðum og er Trivento með langtimasamninga við ræktendur til að trygjga aðgang að þrúgum í þessi vín.

Miranda hefur einnig verið að þróa fram fleiri vín, meðal annars Malbec-vínið Gran Lomo sem er hreint Malbec, úr þrúgum frá Lujan, Maipú og Miðsvæðinu, stílað inn á þá sem eru að leita á hagstæðu rauðvíni með rauðu kjöti. „Malbec er þrúga sem hentar einstaklega vel með nautakjöti, hún er rík af tannínum sem mýkjast þegar þau koma í snertingu við próteínin í kjötinu.“

Næsta gæðalína fyrir ofan eru Reserve-vínin sem gerð eru af Maximiliano Ortiz. Vínin eiga að hans sögn að endurspegla þrúgurnar í sinni bestu mynd. Við byrjum á því að smakka Chardonnay Reserve úr þrúgum frá Uco-dalnum. Stíllinn hefur breyst töluvert á undanförnum árum. Á fimm árum hefur hlutfallið af víninu sem látið er liggja á eikartunnum farið úr 40% í 22% til að gera vínin ávaxtaríkari. Þetta er flottur Chardonnay, mikill sítrusávöxtur, appelsínubörkur, ögn míneralískur með ferskri sýru. „Minni eik dregur betur fram orku ávaxtarins,“ segir Ortiz og hann hefur sömuleiðis dregið úr eikarnotkun í rauðvínunum með sambærilegum hætti og er nú um 30% af víninu látið liggja á tunnum fyrir hina endanlegu blöndun. Við smökkum þrjú Reserva-vín öll af árgerðinni 2015, hreinan Malbec, hreinan Cabernet og Cabernet-Malbec-blöndu. Þrúgurnar koma frá bæði Miðsvæðinu og Uco þar sem það síðarnefnda kemur með ferskari og míneralískari ávöxt í blönduna. Það eru sömu þrúgur notaðar í hreinu Malbec og Cabernet-vínin og blönduna og forvitnilegt að sjá hvernig þær standa bæði einar og sér og síðan í samfloti. Malbecinn með tæran rauðan ávöxt, kirsuber og út í jarðarberjasultu, Cabernetinn dekkri, kryddaður með vott af tóbakslaufum, flottur tannískur strúktúr. Í blandaða víninu eru einkennin pipruð í bland við kirsuber og fíkjur, mjúk tannín.

Martinez verður tíðrætt um Uco og segir það vera það svæði þar sem argentínskur Cabernet Sauvignon taki á sig hvað besta mynd. Uco er líka ofarlega í huga hjá Germano Cesare sem sér um víngerðin í topplínunni Golden Reserve sem hefur sankað að sér viðurkenningum um allan heim. Syrah-vínið í þeirri línu er einmitt gert úr Uco-þrúgum en hvergi virðist hún spjara sig betur í Argentínu heldur en í Uco. Það er hins vegar Malbec sem er hjartað í Golden Reserve-línunni og þær þrúgur koma allar frá ekrum í Lujan de Cuyo, sitt hvorum megin við Mendoza-ána sem rennur suður af borginni. Þarna hófst vínræktin í Mendoza á sínum tíma og elsta Malbec-vínviðinn í héraðinu er að finna í Lujan, jafnvel 60-100 ára gamall.

Framleiðsla á Golden Reserve hófst árið 2000 og hefur verið í höndum Cesare frá árinu 2002. „Við notum einungis bestu þrúgurnar af ekrunum í Golden Reserve og vínin eiga að endurspegla Malbec frá Lujan í sinni bestu mynd.“ Cesare hefur gert töluverðar breytingar á stílnum og við smökkum þrjá árganga til að draga þær fram, 2006, 2010 og 2013. Á þeim tíma hefur verið dregið úr eikarnotkuninni en í byrjun var vínið gert 100% á nýjum eikartunnum. 06 er enn kraftmikið, liturinn ungur, ávöxturinn þroskaður og öflugur. 2010 einkennist af krafti með svakalega flottum tannín-strúktúr, dýpt og lengd. 2013 hefur sömu samþjöppun í ávexti en hann er rauðari og tannínin mildari og mýkri, ávöxturinn sjálfur meira áberandi og fínlegri.

„2013-árgangurinn er farinn að endurspegla þann áfangastað sem að við ætlum okkur að komast á með vínið. Þegar að vínræktin var enn í þróun í Argentínu horfðum við mikið til þess sem að önnur lönd voru að gera. Nú eru argentínskir vínræktarmenn búnir að læra betur inn á aðstæður og Malbec-þrúguna og við erum að ljúka við að móta hinn argentínska stíl. Það hefur orðið mikil endurnýjun í hópi víngerðarmanna á síðustu árum, við höldum hópinn vel saman, deilum af reynslu okkar og eigum í stöðugu samtali þó svo að vínhúsin okkar eigi auðvitað jafnframt í innbyrðis samkeppni. Eitt af megineinkennum stílsins sem er að mótast er hófstilltari eikarnotkun. Hún á ekki að kæfa ávöxtinn og einkenni hans og einstakra svæða heldur vinna með honum og draga fram. Ef eikin er ofnotuð fletur hún vínin og einkenni þeirra út og öll vín verða stöðluð.“

Loks er komið að toppvíninu frá Trivento, einnar ekru víninu Eolo. Ekran er í Lujan, tólf hektarar sem að voru gróðursettir með Malbec árið 1912 og 2012 árgangurinn sem að við smökkum því gert á aldarafmælinu. Uppskerumagnið er lítið og það eru einungis framleiddir 500 kassar af Eolo á ári. Þetta er dökkt og massívt vín, ávöxturinn þungur og þykkur en hefur þó næga sýru til að skera í gegn, lyfta víninu upp og gefa ferskleika, tannín feit og mjúk. Eitt af argentínsku ofurvínunum.

Deila.