Trapiche – breiddin í Argentínu

Þróun víngerðar hefur líklega hvergi verið jafnhröð síðustu tvo áratugi eins og í Argentinu. Á örskömmum tíma hefur víngeirinn nútímavæðst og mótað sér alþjóðlega sérstöðu með hinni stórkostlegu Malbec-þrúgu. Ný vínhús hafa sprottið upp og vínrækt numið nýjar lendur, stöðugt hærra í hlíðum Andes-fjallana.

Vínrækt í Argentínu hvílir hins vegar á rótgróinni hefð bæði vínræktar og vínneyslu og lengst af var framleiðslan fyrst og fremst fyrir innanlandsmarkaðinn ólíkt því sem var uppi á teningnum í Chile þar sem vínframleiðslan hefur ávallt fyrst og fremst tekið mið af útflutningsmörkuðum.

Trapiche er stærsta og eitt elsta vínhús Argentínu og hefur verið leiðandi á mörgum sviðum þau 130 ár sem það hefur starfað og að mörgu leyti dregið vagninn ásamt hinum risanum, Catena-Zapata, í að koma argentínskum vínum á kortið alþjóðlega á síðustu árum.

Víngerðarhúsið er staðsett skammt suður af borginni Mendoza og þar hefur gamla múrsteinsbyggingin sem reist var 1883 og lengi hýsti víngerðina verið gerð fallega upp en við hlið hennar má enn finna gamla brautarteina þar sem lestirnar á leiðinni til Buenos Aires stoppuðu á árum áður til að taka við víni. Fyrir framan víngerðina er nú verið að þróa lífeflda ræktun á fjögurra hektara ekru.

Þetta er gífurlega stórt vínhús sem framleiðir breiða línu af vínum frá mismunandi svæðum. Allt frá einföldum, mjúkum „hversdagsvínum“ upp í einhver allra bestu vín Argentínu á borð við „terroir“-vínin sem að víngerðarmaðurinn Daniel Pi velur frá einstökum, litlum ekrum í Mendoza. Nýlega fékk til dæmis Trapiche Terroir Series Malbec 2011 heila 95 punkta hjá hinu virta Wine Advocate-riti Roberts Parkers.

Trapiche á vínhús stór og smá á fjölmörgum svæðum í Argentínu, t.d. El Esteco í Salta, nyrst í Argentínu, Finca Las Moras í San Juan, norður af Mendoza. Einhver athyglisverðustu vínin sem að smökkuð voru í heimsókninni til Trapiche voru vín framleidd undir merkjum Tres 14-víngerðarinnar í Uco-dalnum þar sem vínekrurnar teygja sig allt upp í 1300 metra hæð yfir sjávarmáli.

En víngerðin er ekki bara að færa sig lengra upp í hæðirnar. Skammt frá Buenos Aires hefur Trapiche hafið vínrækt á svæðnu Chapadmalal undir merkjum vínhússins Costa e Pampas. Þetta er fyrsta vínræktarsvæði Argentínu sem er nálægt sjó og er einungis í 46 metra yfir sjávarmáli. Atlantshafið ræður þarna loftslaginu og meðalhitinn og úrkoma er ekki ósvipuð því sem gengur og gerist í Bordeaux í Frakklandi. Mjög forvitnileg vín úr þrúgum á borð við Chardonnay, Sauvignon Blanc, Riesling og Pinot Noir.

Deila.