Essensia er málið

Essensia á Hverfisgötu 6 er nýjasta viðbótin í veitingahúsaflóru Reykjavíkur. Og það sem meira er þetta er ekki bara enn einn veitingastaðurinn heldur veitingastaður sem virkilega bætir einhverju við flóruna sem fyrir er.

Staðurinn er á sama reit og 101-hótelið og það er einmitt Hákon Már Örvarsson, sem undanfarið hefur umbreytt veitingastaðnum þar í Kitchen & Wine sem er hugmyndafræðingurinn á bak við Essensia. Hákon Már hefur verið í röð fremstu matreiðslumanna landsins í á annan áratug og hefur m.a. verið yfir eldhúsunum á Hótel Holti, Vox á Hilton Nordica og Michelin-stjörnu veitingahúsi Leu Linster í Lúxemborg. Að auki má nefna að hann stofnaði grænmetisstaðinn Gló á sínum tíma og náði bronsinu í virtustu matreiðslukeppni heims, Bocuse d‘Or í Frakklandi.

Á Essensia fer hann á nýjar slóðir, leggur áherslu á einfaldleikann, frábær hráefni (mikið til sérinflutt svo sem ólífuolíur) og matargleði.

Staðurinn er bjartur, litríkur og opið eldhús setur sterkan svip á salinn sem býður upp á góða stemmningu en hefur jafnframt það góða hljóðvist að það er hægt að halda uppi eðlilegum samræmum þrátt fyrir líflega stemmningu. Pizzaofn, stór og mikil kaffivél, pylsur og skinkur sem hanga niður úr lofti og vínrekkar upp um veggi gefa ákveðin fyrirheit  um hvað gestir eiga í vændum þegar sest er til borðs.

Matargerðin á Essensia er í anda Miðjarðarhafsins, fyrst og fremst Ítalíu en þarna má einnig finna áhrif frá Spáni og jafnvel Norður-Afríku. Það er hægt að setja saman skemmtilega tapas-máltíð eða byggja upp máltíð í ítölskum anda með antipasti, primi, secondi og dolce. Allir réttir eru þess eðlis að gestir geta deilt þeim á milli sín, allt frá smáréttum upp í steikur.

Það er sama hvar slegið var niður á matseðlinum, aldrei var slegin feilnóta. Í byrjun komu á borðið ólífur, ristaðar möndlur, hráskinka og ostur en síðan var haldið í „eldaða“ forrétti, rófur í tveimur litum með sítrus og myntu, croquetas með Parmaskinku og unaðslegt nauta-carpaccio með haug af Parmesan. Papardelle-pasta með lambaháls var ítölsk sveit út í gegn og síðan kom stór og mikil nautasteik, það sem Ítalir myndu kalla Fiorentina en Bandaríkjamenn Porterhouse. Kjötið kemur frá Kansas og var hreinasta afbragð, meyrt, bragðmikið og eldunin fullkominn. Eftirréttirnir mega ekki gleymast, það ættu enginn að láta tiramisúið fram hjá sér fara. Verð rétta á seðlinum er þannig að hægt er að leyfa sér að prófa ýmislegt, þannig byrja smáréttirnir í rétt rúmum þúsund krónum.

Vínseðillinn er stuttur og snarpur líkt og matseðillinn en hann er virkilega vel valinn og á honum að finna mörg fantagóð vín. Og það sem meira er þá er verðlagning vínanna með því hófstilltara sem að maður hefur séð lengi í Reykjavík, þarna má fá flösku af virkilega góðu víni fyrir sama pening og flaska af sulli kostar á mörgum öðrum stöðum.

Essensia er eins og sagði í byrjun frábær viðbót í veitingahúsaflóruna, staðnum mætti lýsa sem stað með Snaps-stemmningu fyrir þá sem enn sakna matarins á Primavera.

Deila.