Reykt haust frá Borg

Haustið hefur verið viðburðaríkt hjá Borg Brugghúsi. Fyrir nokkru fjölluðum við um Aycaia og endurkomu Grétu. Borg voru hvergi hættir og sendu frá sér 2 bjóra til viðbótar. Báðir eru þeir reyktir en afar ólíkir.

Það fór ekki mikið fyrir endurkomu Surts Nr 30 en engu að síður er hann mættur aftur, núna aðallega fyrir erlendan markað en þó skiluðu sér nokkrar flöskur á valin veitingahús. Þessi taðreykti Imperial Stout er áhugaverður bjór. Um árabil hefur Lava frá Ölvisholti verið áberandi af íslenskum bjórum vestanhafs. Valgeir Valgeirsson bruggari hjá Borg var einmitt fyrsti bruggari Ölvisholts og kom með hugmyndina að brugga reyktan Imperial Stout. Það kom því ekki á óvart að á einhverjum tímapunkti yrði einn af Surtunum hjá Borg reyktur. Bjórinn vakti athygli þegar hann kom út og var nú eins og áður segir bruggaður fyrir erlendan markað. Þegar þetta er skrifað stefnir hann hraðbyr upp „Smoked“ listann á Ratebeer og vermir nú 33. sæti yfir bestu reyktu bjóra heims.

img_1923

Hans er síðan öllu hefðbundnari en fer þó vel út fyrir rammann. Hann er nefndur „Rauchbier“ af Borg og er því óður til fjarskyldra frænda í Bamberg í Þýskalandi, vöggu reyktra bjóra. Aldagömul bjórgerð þar sem þurrkað malt er viðarreykt lifir góðu lífi þar og er Hans því óður til hinna reyktu þýsku bjóra.

Hans hefur talsvert jafnvægi, reykur er ekki yfirgnæfandi og myndi maður telja að þetta væri hinn fínasti matarbjór. Lítið er eftir í hillum ÁTVR og því um að gera að smakka áður en birgðir klárast.

Deila.