Hver er jólabjórinn 2016?

Það er jafnörugg vísbending og bruni IKEA-geitarinnarum að jólin séu handan við hornið þegar sala á jólabjórnum hefst í búðum og á börum. Danskur jólabjór sést auglýstur í íslenskum blöðum fram til ársins 1915 áður en bjórbannið skall á sem ekki var aflétt fyrr en 1989. Strax og bruggun og sala á bjór var heimil á ný fóru menn að huga að því að gera jólabjór. Sanitas (sem nú heitir Viking) setti á markað ögn dekkri bjór en venjulega fyrir jólin 1989 en gat þó ekki gert jólabjór í dönskum stíl þar sem að ekki var þá heimilt að bjórinn væri umfram ákveðið áfengismagn. Ölgerðin kom svo með jólabjór á markað 1991 og var hann í þýskum „festival“-stíl samkvæmt fréttum frá þeim tíma.

Nú er svo komið að flest íslensku brugghúsin setja ekki bara einn heldur yfirleitt fleiri jólabjóra á markað auk þess sem töluvert er flutt inn af erlendum hátíðarbjórum. Hugtakið jólabjór er raunar mjög óljóst og teygjanlegt. Það er ekki til nein ein týpa af öli sem kalla mætti hið hefðbundna jólabrugg en svona samkvæmt norrænu hefðinni má segja að jólabjór sé yfirleitt aðeins dekkri en hefðbundinn bjór, aðeins sætari, áfengari og oft svolítið kryddaður.

Ríkustu jólabjórshefðina er að finna í Danmörku en þar byrjaði bruggrisinn Tuborg á því árði 1990 að kynna fyrsta föstudag nóvembermánaðar sem „j-daginn“ eða jólabjórsdaginn.  Óhætt er að segja að þessi dagur hefur fyrir löngu markað sér hefðarrétt þar í landi og er einn af mikilvægustu þáttunum í jólahaldi Dana.

Fyrir þessi jól eru á fjórða tug „jólabjóra“ á boðstólum hér á landi og líkt og undanfarin ár kom bjórsmökkunarteymi Vínóteksins saman til að fara yfir bjórana að þessu sinni á Skúla Craft Bar. Í smökkunarteyminu voru þeir Haukur Heiðar Leifsson, bjórgúrú Vínóteksins, Steingrímur Sigurgeirsson, ritstjóri Vínóteksins, Þorri Hringsson listamaður og vínsmakkari, Gunnar Óli Sölvason, bjórháhugamaður og félagsmaður í Fágun, Björn Árnason rekstrarstjóri Skúla Craft Bar og Guðjón Eggert Steinþórsson frá Mikkeller & Friends.

Við skiptum eins og alltaf smökkuninni í tvennt. Annars vegar hefðbundnari bjórar í kringum 5% að áfengismagni og hins vegar öflugri sérbjórar af ýmsu tagi. Í báðum flokkunum voru bjórarnir smakkaðir algjörlega blint. Teymið vissi ekki hvaða bjór var verið að smakka hverju sinni og þegar hulunni var í lok smökkunar svipt af bjórunum var ýmislegt sem kom verulega á óvart. Öllum bjórum var gefinn einkunn á bilinu 1-5 sem tók mið af því í hvaða flokki var verið að smakka. Eftir hvern bjór bar hópurinn saman bækur sínar og reyndi að ná samstöðu um einkunn bjórsins. Stundum voru menn algjörlega sammála og stundum var bilið eitthvað breiðara á milli skoðana manna á bjórnum.

Almennt má segja að í fyrri flokknum það er í flokki almennra bjóra hafi fátt komið á óvart. Bjórarnir flestir í frekar ljósum og lagerkenndum stíl og oft á tíðum erfitt að átta sig á hvað ætti að vera „jólalegt“ við þá annað en nafnið, kannski ekki slæmir einfaldir lager-bjórar, en jafnframt líka einungis það.

Jólakaldi og Jólabjórinn frá Viking komu þannig alveg hreint prýðilega út. Kaldi með þétt, svolítið „kemískt“ bragð, smá lakkrískeim. Víking ágætlega maltaður og vel gerður bjór, þó hann hafi kannski ekki verið sérstaklega jólalegur.

Það voru hins vegar tveir aðrir bjórar sem stóðu upp úr í þessum hluta smökkunarinnar. Annars vegar Santa Paws frá BrewDog og hins vegar Almáttugur jólaöl frá Steðja.

Santa Paws er með kandís og vanillu í nefi, ristaður og nokkuð sýrumikill. Töluvert skiptar skoðanir, hann vakti upp mismunandi hughrif en á heildina var hann annar þeirra bjóra sem náði lengst í þessum flokki.

Það er töluverður lakkrís í Steðja, tað, súkkulaðkex sem að menn voru ekki sammála um hvort væri Oreo eða Bourbon-kex, sætur og svolítið klístraður, nokkur vanilla. Það voru reyndar töluvert skiptar skoðanir um bjórinn, einn sagði að þetta væri „gott vont“ en annar að þetta væri „eitthvað fyrir mig“. Og þegar upp var staðið og stigin tekin saman þá var hann á toppnum.

Í flokki sérbjóranna var óneitanlega meira að gerast og margir, jafnvel flestir bjóranna góðir og spennandi þótt einhverjir hafi þó vissulega ekki fallið undir þá skilgreiningu.

Af íslensku bjórunum má nefna Einstök Doppelbock, gott malt og beiskja, kandís, ágætis jólabjór sem þokkalega út í smökkuninni. Hinn bjórinn frá Einstök, Winter Ale var hins vegar sá sem skoraði lægst af öllum í þessum flokki.

Jólaporter frá Kalda var hinn ágætasti, mikið malt og súkkulaði, léttur og þægilegur porter, ekki endilega dæmigerður porter.

Bryggjan Brugghús kom núna með sinn fyrsta jólabjór. Hann er belgískur dubbel á 75 cl flöskum. Smá málmur, ávaxtaka í nefi, malt og súkkulaði, mikið nef en ekki alveg eins mikill í munni og angan gefur til kynna.

Giljagaur frá Borg átti ekki gott ár í fyrra eftir að hafa áður verið með þeim bestu ef ekki sá besti í nokkur ár. En nú er hann kominn aftur, eins og einn smakkarinn orðaði það. Maltsæta, dökkir ávextir, klístraður, mikið boddí, mikill bjór sem ber áfengið vel. Ekki eins magnaður og á krana (hvaða bjór er það svo sem?) en virkilega flottur.

Snowball frá To Öl sem undanfarin ár hefur undantekningarlaust verið í toppsætunum var hins vegar ekki alveg í sínu besta formi í ár, alls ekki slæmur en hann er léttari, það er minni ávöxtur í honum en hefur verið og það skortir svolítið upp á jafnvægið, eins og gerið hafi nánast betur þetta árið.

Þarna voru hins vegar aðrir danskir bjórar sem að blómstruðu. Norrebro Mörk Ale kemur nú inn í fyrsta skipti, flottur bjór með enskri jólaköku í nefi, piparköku, vanillu og appelsínu, meðalstór í boddí.

Sá bjór sem að menn voru sammála um að væri sá besti var hins vegar A Red & White Christmas frá Mikkeller. Hoppy, mikið greni, engifer, kóríander og einiber. Öll jólin mætt. Þurr, mikill og langur. Yfirburðabjór í ár sem endaði með einkunnina 4,5, þá hæstu í smökuninni. Tvímælalaust sá besti fyrir þessi jól!

Við munum svo fjalla nánar um smökkunina og einstakar tegundir á næstunni.

 

Deila.