Borg með nýtt súröl

 

Væntanlegur í ÁTVR er nýr bjór frá Borg Brugghús. Vínland Sour Autumn Saison sem er sameiginlegt verkefni Borgar og Four Winds frá Vancouver í Kanada.

Borg heimsótti Four Winds í vor og bruggaði bjór í brugghúsinu hjá þeim. Sá bjór liggur en á tunnum en stutt er í að hann liti dagsins ljós. Bruggari Four Winds átti síðan leið til Íslands í haust og var því ákveðið að brugga „heima og heiman“.

Bjórinn er Saison eins og nafnið gefur til kynna. Við höfum áður fjallað um þennan stíl en nokkrum orðum er Saison öl sem á ættir að rekja til Belgíu. Hér er um yfirgerjað öl að ræða sem upprunalega var sumarbjór fyrir vinnufólk í Belgíu. Hann var bruggaður að vetri til og geymdur fram á sumarið og borinn fram á heitustu sumarmánuðunum. Gerið leikur aðalhlutverk en í Belgíu er einnig þekkt að kryddum sé bætt við.

Vínland er gerjað með húsgeri Four Winds og einnig Lactobaccilus, mjólkurgerli sem gerir bjórinn örlítið súran. Íslensk aðalbláber og krækiberjasaft gefa bjórnum haustlegt og íslenskt yfirbragð.

Vínland er afar bragðgott, flókið og fágað öl. Það má segja að það sé rökrétt framhald af Leifi og Fjólubláu Höndinni sem var samvinnuverkefni með Arizona Wilderness. Þetta er bjór til að njóta og skemmtilegt að fleiri súrir bjórar eru að ryðja sér til rúms hér á Íslandi.img_0180

Deila.