Fetzer er vínhús sem stofnað var af Barney Fetser í Kaliforníu fyrir rétt tæpum fjörutíu árum sem hefur lengst af lagt áherslu á lífræna ræktun og sjálfbæra ræktun og er með stærstu framleiðendum á því sviði í Kaliforníu. Anthony Hill er ein af vínlínunum frá Fetzer, með þeim ódýrari en engu að síður er þetta vín sem kemur skemmtilega á óvart.
Dökkrauður litur, angan af sætum plómum og kirsuberjum, súkkulaði, ávöxturinn mjúkur og sætur, mild tannín, að mörgu leyti mjög týpískur og vel gerður Kaliforníu-Merlot.
1.799 krónur. Frábær kaup. Vel gert "hversdagsvín", fyrir t.d. pizzu, pasta og jafnvel grillkjötið. Enginn árgangur tiltekinn á flöskumiða.