Stone Brewing á Íslandi!

Stone Brewing sem lengi hafa verið leiðandi af í bjórgerð á vesturströnd Bandaríkjanna eru komnir til Íslands.

Blásið er til mikillar veislu í dag, 26. janúar, bæði á Kex Hostel og Mikkeller & Friends á Hverfisgötu 12. Almenn kynning með fulltrúum frá Stone Brewing verður á Kex Hostel kl 17:00 og hægt er að nálgast miða á kexland.is en örfáir miðar eru í boði.

Í framhaldi verður svo ærlegt „tap takeover“ á Mikkeller & Friends þar sem bjórtaflan verður full af bjórum frá Stone og margir af þeim bjórar sem afar erfitt er að komast yfir.

Stone bjórar koma svo í verslanir ÁTVR þann 1. febrúar.

Þetta er einn metnaðarfyllsti innflutningur á bjór sem um getur á Íslandi og eru bjórarnir sendir hingað í kæligám beint frá brugghúsi Stone í Berlín.

Sem fyrr segir hefur Stone Brewing verið leiðandi afl í heimi örbrugghúsa í Bandaríkjunum og hafa vinsældir þeirra vaxið stöðugt en um árabil var Stone IPA talinn besti IPA í heimi. Sögu Stone Brewing má rekja til árdaga heimabruggs sprengjunnar á vesturströnd Bandaríkjanna en frá því að hafa bruggað bjór í bílskúrum sínum í San Diego um árabil létu Greg Koch og Steve Wagner slag standa og stofnuðu brugghúsið árið 1996. Stone þótti mjög framúrstefnulegt brugghús og snemma urðu þeir frægir fyrir mjög beiska bjóra og fyrir að fara ótroðnar leiðir í bjórgerð. Þeim var sama um almenningsálit og vildu brugga bjóra sem þeim þóttu góðir. Mjög humlaðir bjórar urðu snemma þeirra aðalvara og jukust vinsældir bjóra eins og Arrogant Bastard og Stone IPA mjög.

Í dag brugga þeir á þremur stöðum: í San Diego, Richmond og Berlin. Brugghúsin í Berlín og Richmond eru ný af nálinni en í heimi bjórsins skiptir ferskleiki miklu máli. Brugghúsið í Richmond í Virginíu tryggir ferska Stone bjóra fyrir austurströnd Bandaríkjanna og Berlín þjónustar Evrópu.

Þetta er mikill hvalreki fyrir eins lítinn markað og Ísland og eitthvað sem enginn bjórunnandi má láta fram hjá sér fara

Stone IPA, Ruination Double IPA og Go To IPA mæta svo í Vínbúðir 1. febrúar.

 

Deila.