Dill rýfur stjörnumúrinn

Fyrsta Michelin-stjarnan er komin til Íslands! Þessi langþráði draumur íslenska veitingahúsageirans er nú loksins orðinn að veruleika og það kemur líklega engum á óvart sem fylgst hefur með þróun veitingahúsa síðustu árin að það skuli hafa verið Dill sem rauf þennan múr.

Af öllum veitingavísum í heiminum, Gault-Millau, Zagat, White Guide, Tatler eða Gambero Rosso ólöstuðum þá er það draumurinn Michelin-stjörnu sem fær kokka til að leggja á sig ómælt erfiði. Menn geta fussað og sveiað yfir Michelin-snobbinu þar til þeir verða bláir í framan en svona er það bara.

Michelin er franskur hjólbarðaframleiðandi og upphaflega var handbókin þeirra ætluð viðskiptavinum sem að ferðuðust um vegi Frakklands og vildu vita hvaða veitingahús væru þess virði að prófa. Bestu staðirnir fengu stjörnur, sem geta mest orðið þrjár. Bara það að fá eina þýðir að þú ert kominn í hóp virtustu veitingahúsa veraldar. Michelin umvefur sig leyndarhjúpi og það veit enginn nákvæmlega hvað þarf að koma til ef stjarna á að vera í kortunum. Lengi vel virtust forsendurnar þær að menn fylgdu hinu stífa franska formi og skilgreiningunum á því hvað teldist góð matargerð, umhverfi og þjónusta. Eftir því sem Michelin hefur fært út kvíarnar, ekki síst til Bandaríkjanna, hafa skilgreiningarnar orðið óljósari nema hvað að staðurinn verður að vera algjörlega frábær þegar kemur að mat, þjónustu og umhverfi.

Ragnar Eiríksson yfirmatreiðslumeistari og stjörnukokkur.

Allt frá fyrsta degi hefur Dill verið einstakur staður, djarfari, áræðnari en aðrir. Stofnendurnir Gunnar Karl Gíslason og Ólafur Örn Ólafsson gerðust helstu boðberar nýnorrænu matargerðarinnar á Íslandi og staðurinn varð nánast frá fyrsta degi einn besti, ef ekki sá besti á Íslandi.

Það hafa orðið nokkur kaflaskil á Dill. Þegar að staðurinn flutti úr Norræna húsinu á Hverfisgötu var loksins eins og allt hefði smollið saman. Ekki það að umhverfið hans Altos hafi ekki verið við hæfi heldur þarna var staðurinn kominn inn í sal sem var minni, sérhannaður utan um Dillið og hentaði konseptinu fullkomlega og gerði mönnum kleift að taka það alla leið. Til að mynda var sætunum fækkað um ein tíu og voru þau þó einungis um þrjátíu í Norræna húsinu.

Önnur kaflaskil urðu fyrir rúmu ári þegar að Gunnar Karl eldaði sína síðustu kvöldmáltíð á Dill og hélt vestur um haf til að þróa og síðan halda utan um eldhúsið á Agern. Sá staður fylgir svipaðri línu og Dill þótt hann sæki hráefnið frekar í náttúru upstate New York en Íslands. Það leið ekki á löngu áður en New York Times bar búið að hlaða staðinn lofi og fyrir ekki svo löngu var tilkynnt um að Agern hefði hlotið eina af hinum eftirsóttu Michelin-stjörnum.

Það segir mikla sögu um hversu sterkar stoðirnar eru orðnar að þrátt fyrir að Gunnar Karl hafi haldið á öðrum mið hefur eldhúsið haldið sínu striki undir stjórn Ragnars Eiríkssonar yfirmatreiðslumanns og landað ekki meira né minna en stjörnu. Um sama leyti tók Ólafur Ágústsson við rekstri Dill af Gunanri ásamt Hinriki Carli Ellertssyni.

Þessi stjarna er ekki einungis gífurleg viðurkenning fyrir fagmennsku og hæfni allra á Dill. Hún breytir að mörgu leyti forsendunum í íslensku veitingahúsalífi. Árum og áratugum saman hafa menn beðið eftir því að Michelin færi nú loks að beina sjónum sínum hingað en allt kom fyrir ekki. Nú er Ísland komið á kortið í fyrsta sinn (og raunar Færeyjar líka þar sem veitingastaðurinn Koks hlaut verðskuldaða stjörnu) og það mun hafa afleiðingar. Héðan í frá verða veitingahús á Íslandi hlutur af því mengi sem að Michelin horfir til þegar að stjörnum er úthlutað og vonandi verður það metnaðarmál fleiri íslenskra matreiðslumeistara að koma nú fleiri stjörnum á Íslandskortið. Nú vitum við að það er hægt.

Hér má svo til fróðleiks lesa viðtal sem við tókum við Gunnar Karl skömmu eftir að Dill opnaði þar sem að hann lýsir tilurð Dill og áherslum.

Deila.