Sumarbjórs umfjöllun: Borg Sæmundur

Sumarið er mætt í allri sinni dýrð og sumarbjórarnir farnir að sjást í verslunum ÁTVR og á knæpum landsins.

Borg Brugghús ætlar að vera afar upptekið í ár og sendir frá sér nokkra sumarbjóra. Sá fyrsti sem við tökum fyrir er Sæmundur. Sæmundur er Pale Ale með mangó sem í fyrstu var þróaður með Kex Hostel en er nú kominn í dósir fyrir sumarið. Bjórinn er er sneisafullur af mangó og er humlaður með Citra og Equinox til að bæta við meiri dýpt við ávaxtakeiminn.

Sæmundur er vel gruggugur í glasi og líkist einna helst fjarlægum frændum sínum í kringum Boston þar sem hinn ósíaði bjórstíll „New England IPA“ er að tröllríða öllu. Í nefi er gríðarlega mikill mangó keimur en með ögn af sítrus ávöxtum einnig. Enskt ölger gerir hann mjúkan með miklum ávaxtakeim í munni. Sæmundur er tiltölulega áfengis lítill og hentar því vel að fá sér nokkra í röð á heitum sumardögum.

Hér er afbragðs sumarbjór á ferðinni sem fær full meðmæli.

Borg fær einnig lof fyrir að setja þennan bjór í dósir, sem eru hentugar í ferðalagið, umhverfisvænar og verja bjórinn fyrir bæði sólarljósi og súrefni.

Deila.