Hin ljúffengu leyndarmál Serchio-dalsins

Þegar Ítalía er nefnd er það fyrsta sem mörgum dettur í hug Toskana. Þetta ægifagra hérað í miðju Ítalíu er samnefnari yfir flest það sem margir elska við þetta ótrúlega land. Sögufrægar borgir á við Flórens, Siena og Lucca, þarna varð endurreisnin til, þarna finnum við nöfn á borð við Medici og da Vinci í sögunni, einhver mögnuðustu og fallegustu vínhéruð Evrópu svo sem Chianti, Bolgheri og  Montalcino. Einstakar sveitir þar sem vínviður og ólífutré setja svip sinn á dal eftir dal, hæð eftir hæð. Og svo auðvitað maturinn því óvíða í heiminum fær maður eins gott að borða og í Toskana.

Og þetta er ekki falið leyndarmál, Toskana er gífurlega vinsæl meðal ferðamanna sem fer ekki fram hjá neinum sem kemur við í Flórens, Pisa eða Siena. Hver þeirra tekur árlega við margföldum fjölda þeirra ferðamanna sem sækir Ísland heim árlega.

En það má enn finna svæði í Toskana sem eru vel falin leyndarmál, þar sem hin gamla Ítalia lifir góðu lífi og hægt er að njóta náttúru, menningar og matar innan um Ítali en ekki fyrst og fremst Þjóðverja og Bandaríkjamenn eins og oft vill verða raunin á vinsælu ferðamannastöðunum. Og þessi svæði eru auðvitað með allt annað og hagstæðara verðlag en á frægu ferðamannaseglunum.

Serchio-dalurinn skammt frá Lucca, sem hlykkjast frá norðri til suðurs á milli tveggja fjallgarða, Appenínafjalla og Apuan Alpanna er slík gersemi. Landslagið er gífurlega ólíkt því sem margir tengja við Toskana, háir fjallgarðar á báðar hliðar og meira um furu- og kastaníutré en ólífutré. Þetta er stórkostlegt útivistarsvæði, draumaaðstæður fyrir hjólreiðamenn og göngufólk og jafnvel skíðafólk yfir háveturinn.

Þekktustu þorpin eru Barga og Bagni di Lucca en það síðarnefnda var með flottustu áningarstöðum ferðamanna á Ítalíu á átjándu og nítjándu öld, þarna var frægt spilavíti og aðalsmenn komu víða að til að njóta náttúrubaðanna og stytta sér stundir í kasínói bæjarins. Þetta var til að mynda helsti sumardvalarstaður Napóleons um skeið. Bærinn fór hins vegar illa útúr ferlinu öllu í kringum sameiningu Ítalíu og lendi undir stjórn hertoga sem vildi helst draga sig og bæinn sinn í hlé. Bagni hefur hins vegar enn yfir sér glæsilegt yfirbragð, tignarlegar byggingar má víða sjá og í raun ótrúlegt að ekki skuli allar götur yfirfullar af ferðamönnum.

Í hlíðunum í dalnum eru síðan alls staðar örlítil þorp þar sem lífið gengur sinn vanagang með sama hætti og það hefur gert öldum saman. Sömu fjölskyldur hafa yfirleitt búið í sama þorpinu í margar aldir og ekkert endilega haft mikið samneyti við íbúana í næsta þorpi. Þarna eru menn sjálfum sér nægir. Menn ala sín dýr, rækta sína ávexti, sitt korn og sitt grænmeti. Það er ekki mikið um formlega vínrækt í dalnum, þótt vínin frá Serchio og Garfagnana hafi áður verið þekkt, en þegar betur er að gáð kemur það auðvitað í ljós að við nær hvert einasta hús er ræktaður vínviður þar sem hver og einn ræktar sinn ársskammt.

Sá fyrsti til að endurreisa formlega vínrækt var lífskúnsnterinn Gabriele de Prato. Búgarðurinn hans Podere Concori er allur lífrænn og lífefldur og nokkur af vínunum hafa vakið töluverða athygli t.d. vínið Melograno og Pinot Noir.  Faðir hans hafði þá sýn að vekja á ný til lífsins vínrækt á þessum hæstu vínekrum Toskana og Gabriele hélt því starfi áfram.

Það spillir ekki fyrir að einhver besta og glæsilegasta gistingin í Serchio-dalnum er í íslenskum höndum hjá Pálma Sigmarssyni í Colletto.

Colletto er efst á hæði við þorpið Coreglia Antelminelli með stórkostlegt útsýni yfir dalinn. Þar er hægt að leigja hvort sem er sjálfa Colletto-villunna eða íbúðir í húsunum við, Paradiso og Belvedere. Allar frábærlega búnar með stóru ítölsku eldhúsi og sundlaug. Það væsir ekki um neinn í Colletto sem er fullkominn gististaður fyrir heimsóknir til norðurhluta Toskana, einungis í um klukkutíma fjarlægð frá hvort sem er Flórens eða Pisa og hálftíma frá hinni fallegu borg Lucca. Þegar komið er niður hæðina eru ekki margar mínútur í fjölmörg þorp þar hægt er að velja úr frábærum veitingahúsum.  Pálmi hefur komið sér upp tengslum um allan dalinn og virðist getað reddað nokkurn veginn hverju sem er, hvort sem að áhugi er á golfi, nuddi eða að heimsækja vínbónda á borð við Gabriele þá er það lítið mál. Eða þá að fá listakokka og vínþjóna til að setja upp veislur í Colletto. Svo er líka hægt að fá konu úr sveitinni til að koma og sjá um eldamennskuna með frábærum ítölskum heimilismat. Jafnvel er hægt að kaupa inn sjálfur á mörkuðunum í kring og slátraranum og fá síðan námskeið í því hvernig öllu er breytt í dýrindis ítalska máltíð. Þetta hefur reynst mjög vinsælt t.d. hjá matarklúbbum sem að gera notið þess að elda saman úr frábæru hráefni í stórkostlegu umhverfi.

Nánar um Colletto Villas er hægt að lesa með því að smella hér og hér.

 

Deila.