Cecchini – stjörnuslátrarinn frá Panzano

Þorpið Panzano lætur ekki mikið yfir sér, það er að segja á mælikvarða Toskana. Í hjarta Chianti Classico-svæðisins eru ægifagrir dalir og heillandi gömul þorp á bak við hverja beygju og í sjálfu sér er Panzano, nokkrum kílómetrum frá Greve-in-Chianti,  einungis eitt af mörgum fallegum þorpum þar sem fínt er að stoppa til að njóta útsýnisins allt í kring. Það er þó eitt sem dregur marga gesti inn í þorpið, slátrari bæjarins.

Það hefur færst í vöxt í seinni tíð að matreiðslumeistarar, víngerðarmenn og bakarar verði að heimsfrægum stórstjörnum. Á Ítalíu eru það hins vegar ekki síður slátrararnir sem njóta mikillar virðingar og líklega er enginn slátrari á Ítalíu, og hugsanlega heiminum, þekktari en Dario Cecchini, slátrarinn frá Panzano.

Cecchini hefur skorið niður kjötið fyrir íbúa Panzano um margra alda skeið, Dario er níundi ættliðurinn sem að rekur kjötbúðina í þorpinu en á þessum slóðum er það nautakjöt sem ræður ríkjum og þá ekki síst þykkar og miklar T-Bone/Porterhouse-steikur sem Toskana-búar nefna Bistecca Fiorentina.

Raunar hafði Dario Cecchini önnur áform og var langt kominn með háskólanám í dýralækningum í Pisa þegar að faðir hans féll frá og hann ákvað að taka við sem slátari í Panzano.

Cecchini hefur alla tíð lagt mikið upp úr því að nýta alla skepnuna og sýna fram á að með réttum aðferðum sé hægt að búa til sælkeramat úr öllum vöðvum nautgripanna. Hann rekur nú þrjú veitingahús í kringum kjötbúðina Antica Maccheleria.

Í fyrsta lagi Officina della Bistecca, þar sem hugmyndir er að bera fram stórsteikur fyrir fólk með góða matarlyst, og það er þörf á góðri matarlyst til að ná að torga öllu því kjötmeti sem borið er fram. Á Solosiccia hinum megin við götuna er áherslan á hugmyndina um að nýta alla skepnuna og gestir fá seðil þar sem fjölmargar ólíkar útgáfur eru bornar fram, langeldaðar, steiktar, grillaðar.  Á báðum stöðum er reglan sú að einn seðill er í boði, þú situr til borð við langborð eða hringborð með öðrum gestum sem pantað eiga sama kvöld. Innifalið í seðlinum er einnig vín frá Cecchini, alveg hreint prýðilegt Chianti-vín, en gestum er einnig velkomið að koma með sitt eigið vín án tappagjalds.

Cecchini vakti heimsathygli þegar að hann hélt sérstaka „minningarathöfn“ um Bistecca Fiorentina þegar að sala á slíkum steikum var bönnuð tímabundið þegar að kúariðufárið stóð sem hæst. Hann er í dag líklega einn þekktasti kjötiðnaðarmaður í heimi, um hann hefur verið fjallað í öllum helstu miðlum heims, stórstjörnur senda sérstaklega á eftir steikunum hans og mataráhugafólk leggur lykkju á leið sína til að koma við í Panzano.

Deila.