Þorrabjórar Ölvisholts

Þorrabjórar eru áhugavert fyrirbæri. Þeir eru nánast andstaðan við jólabjórinn. Í stað þess að vera nánast allir eins eða að sama sniði eins og jólabjórarnir að þá er von og vís að þeir fara mun lengra út fyrir rammann.

Ölvisholt gerir það í ár og bruggar í fyrsta skipti Gose. Gose er skemmtilegur stíll ættaður frá Goslar í Þýskalandi. Bjórinn er ketil sýrður og inniheldur ávallt örlítið salt. Í útgáfu Ölvisholts er bætt við jógúrt frá Örnu og salti frá Saltverk. Þetta er léttur bjór, með örlítinn jógúrt keim en talsvert frískandi eftir stóra máltíð. Skemmtileg nýjung frá Ölvisholti að brugga sinn fyrsta Gose.

Hinn Þorrabjór Ölvisholts er Stóri Skjálfti sem kom fyrst á sjónarsviðið sem þorrabjór brugghússins í fyrra. Hann naut talsverða vinsælda og kemur hann nú í annað skipti. Hann er örlítið malt meiri í þetta skipti en með sama barkar- og humlatón og í fyrra. Þetta er stóri bróðir Skjálfta sem er í grunninn svokallaður „California Common“. Lager bjór sem er gerjaður á hærra hitastigi en gengur og gerist fyrir lager bjór. Hér er á ferðinni stór og mikill bjór eins og áfengis prósentan gefur til kynna en hann er 8.8%. Fínasti bjór með mikinn karakter. Þeir sem eru mikið fyrir mikla bjóra eins og t.d. „Barley wine“ ættu ekki að vera sviknir af þessum.

Deila.