Humar mætir í dag!

Á skömmum tíma hefur Malbygg stimplað sig inn sem eitt heitasta brugghús landsins þegar kemur að skýjuðum IPA bjórum. Í þetta skipti senda þeir frá sér kröftugum Double IPA í samvinnu við Ör Brewing Project sem er lítið og spennandi „gypsy“ brugghús sem var með afar áhugaverða bjóra á Kex Beer Festival.
Humar er humlasprengja með framandi ávaxtatónum í nefi. Í munni er hann afar auðveldur, með áframhaldandi ávaxtakeim, þá sér í lagi sítrús- og stjörnuávextir. Beiskjan er miðlungs sem gerir hann mjög svalandi og afar hættulegan miðað við 8% bjór.
Þegar þetta er skrifað gæti þetta verið besti IPA bjór sem Vínotek hefur tekið fyrir frá innlendu brugghúsi. Þetta er frábær byrjun á íslensku bjór sumri en á komandi vikum mun Vínotek taka saman það besta sem íslensk brugghús hafa upp á að bjóða í sumar en úrvalið hefur aldrei verið jafn mikið og þetta árið.
Humar er mættur í Vínbúðina Skútuvogi þar sem hann mun einungis fást, aðeins tveggja daga gamall. Birgðir eru  innan við 200 dósir og mælir Vínotek með að grípa fleiri en einn.

 

Deila.