Cíu Cíu Piceno Bacchus 2017

Þau eru líklega teljandi á fingrum annarrar handar vínin frá ítalska héraðinu  Le Marche sem hingað hafa ratað í búðir á síðustu árum. Marche er á austurströnd Ítalíu við Adríahafið, norður af Abruzzo. Þekktustu Marche-vínin eru líklega Verdicchio-hvítvínin frá Castelli di Jesi en í innsveitum Marche við hliðar Appenína-fjallgarðsins eru lika ræktuð hin prýðilegustu rauðvín t.d. í vínræktarhéraðinu Piceno, sem fékk DOC-skilgreininguna sína fyrir nákvæmlega hálfri öld.

Cíu Cíu Piceno Bacchus er blanda úr tveimur þrúgum til helminga, annars vegar Sangiovese, sem flestir tengja við Toskana og Chianti-vínin og hins vegar Montepulciano sem við þekkjum líklega flest frá héraðinu Abruzzo. Þetta er ungt vín en engu að síður verulega aðgengilegt, liturinn er dökkrauður út í fjólublátt og mjög djúpur. Angan vínsins er þykk og safarík, þarna eru þroskuð svört ber, kirsuber og sólber er renna saman við apótekaralakkrís. Áferðin er mjúk og þykk, vínið einfalt en aðgengilegt og heillandi.

90%

2.305 krónur. Frábær kaup, mikið vín fyrir peninginn. Fínt með hefðbundnum ítölskum pastaréttum á borð við Bolognese.

  • 9
Deila.