Hardy’s HRB Cabernet Sauvignon 2013

Hardy’s er með elstu vínhúsum Ástralíu og jafnframt það ástralska vínhús sem á sér hvað lengsta sögu á Íslandi. HRB stendur fyrir Heritage Reserve Bin en það eru mjög athyglisverð vín þar sem þrúgum frá mismunandi svæðum þessarar miklu heimsálfu er blandað saman. Í þessu Cabernet-vínu eru það þrúgur frá Margaret River  og Frankland River í Vestur-Ástralíu og Coonawarra í Suður-Ástralíu, en öll eru þau með betri Cabernet-ræktunarsvæðum Ástralíu.

Vínið er mjög dökkt og djúpt á lit og enn mjög unglegt að yfirbragði, skrúfutappi tryggir ávallt ákveðinn ferskleika, í nefinu heitur og djúpur sólberjaávöxtur er rennur saman við myntu, kaffi og eikartóna. Mjög þétt og þykkt, mjúk en kröftug tannín, langt og ferskt. Hörkuvín.

90%

3.999 krónur. Sérpöntun og vel þess virði að sérpanta. Með grilluðu rauðu kjöti og villibráð.

  • 9
Deila.