Selvapiana Chianti Rufina 2016

Fattoria Selvapiana er gamalgróið vínhús á einhverju besta svæði Toskana, sem við sjáum alltof lítið af, Chianti Rufina, austur af borginni Flórens. Vínekrur Rufina-svæðisins eru í um 400 metra hæð yfir sjávarmáli og vínin þaðan eru þétt og yfirleitt með langlífari Chianti-vínum. Rétt eins og annars staðar í Chianti myndar Sangiovese meginuppistöðu vínsins en í víninu er líka örlítið af öðrum klassískum þrúgum héraðsins, Canaiolo, Colorino og Malvasia Nera.

Dimmrautt, út í fjólublátt á lit, þroskaðar plómur, bláber og tóbakslauf, skógarangan, vínið hefur þéttan og góðan strúktúr, tannín sem gefa því breidd og dýpt, það hefur mikla lengd og nægilega sýru til að geta haldið áfram að þroskast og þróast í allmörg ár til viðbótar. Opnið tímanlega og umhellið gjarnan.

2.995 krónur. Frábær kaup á þessu verði, hálf viðbótarstjarna fyrir hlutfall verðs og gæða. Vín með risotto eða pastaréttum þar sem tómatar eru grunnur sósunnar, s.s. Bolognese.

  • 10
Deila.