J. Christopher Pinot Noir 2014

Oregon á vesturströnd Bandaríkjanna kom sér á vínkortið með ræktun á Pinot Noir. Það erum hálf öld síðan að fyrstu Pinot Noir-vínin komu frá Willamette Valley og enn í dag er Willamette það vínhérað í Oregon sem sendir frá sér bestu Pinot-vínin. Nokkur þekkt evrópsk vínhús hafa heillast af aðstæðum á þessum svæði og má þar nefna Búrgundarhúsið Drouhin.

Vínin frá J. Christopher eru samstarfsverkefni tveggja snillinga, annars vegar Ernst Loosen, einhvers þekktasta víngerðarmanns Móseldalsins í Þýskalandi og hins vegar Jay Somers, sem hafði vakið athygli fyrir Pinot-vín í Oregon þegar þeir Loosen kynntust og ákváðu að leiða hesta sína saman.

Þetta Pinot-vín er farið að sýna nokkurn þroska en ber hann mjög vel. Liturinn er farinn að færast úr í rauðbrúnt við röndina og rauður berjaávöxturinn að taka á sig flóknari mynd, kryddaður, þarna eru tóbakslauf, kanilstöng og appelsínubörkur. Mjúkt, ávöxturinn þéttur, smá reykur, langt.

90%

5.895 krónur. Frábær kaup, þetta er flottur, þroskaður Oregon-Pinot. Með til dæmis mildri villibráð, grilluðu nautakjöti. Ostum.

  • 9
Deila.