Klassísk Paella

Paella er líklega sá réttur sem flestir tengja við Spán enda er þetta eins konar þjóðarréttur þeirra Spánverja. Upprunalega kemur Paella frá Valencia-svæðinu en hún er í dag elduð í óteljandi afbrigðum um landið allt.   Spánverjar nota yfirleitt spænsk grjón sem nefnast Calasparra  eða Bomba en þau eru ekki fáanleg hér á landi. Risotto-grjónin Arborio gera hins vegar sama gagn. Þá er vert að benda á að grjón sem eru seld í búðum sem „grödris“ eða grautargrjón eru yfirleitt stutt, ítölsk grjón sem vel má nota. Lesið bara á pakkann hvort upprunaland grjónanna sé ekki örugglega Ítalía.

Þetta er uppskrift að Paella Mixta, það er með bæði kjöti og sjávarfangi. Það má líka bæta við skeljum, t.d. krækling eða freyjuskel ef þið finnið. Uppskriftin er fyrir 4-6.

 • 4 dl risotto-grjón, t.d. Arborio
 • 7 dl vatn með viðbættum kjúklingakrafti, 2 teningar
 • 6 kjúklingalæri, úrbeinuð, skorin í bita
 • 10-12 risarækjur
 • 100 g chorizo-pylsa, skorin niður í litla bita
 • 2 dl frosnar grænar baunir
 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 1 stór laukur, saxaður
 • 1 paprika, skorin í bita
 • 4-6 hvítlauksrif, söxuð
 • 1 búnt fínt söxuð steinselja
 • 1 sítróna
 • 1 tsk paprika
 • klípa af saffran-þráðum, ca tsk
 • ólífuolía

Paella er yfirleitt elduð á sérstökum stórum pönnum. Notið breiðustu pönnuna sem að þið eigið.

Byrjið á að hita vatnið upp að suðu í potti og hrærið kjúklingakrafti saman við.

Blandið saffran, safa úr hálfri sítrónu og steinseljunni saman og geymið.

 

Hitið um 1 dl af ólífuolíu á pönnunni og byrjið á því að steikja kjúklingabitana í 2-3 mínútur. Takið af pönnu og geymið í skál. Steikið chorizo-bitana í 2-3 mínútur og takið af pönnunni og geymið með kjúklingnum. Steikið næst risarækjurnar þar til að þær hafa tekið á sig rauðan lit, 2-3 mínútur. Takið af pönnu og geymið.

Bætið olíu á pönnuna ef þarf og lækkið hitan aðeins. Mýkið næst laukinn og paprikubitana í um 10 mínútur á pönnunni. Bætið tómötum, hvítlauk og paprikukryddi á pönnuna, leyfið að malla í nokkrar mínútur.

Setjið næst grjónin út á og hitið upp á pönnunni í 2-3 mínútur. Hrærið í með sleif allan tímann. Bætið þá steinselju- og saffran blöndunni, kjúklingnum, chorizo og baunum út á og hrærið saman við.

Hellið nú kjúklingasoðinu saman við og hrærið vel saman. Látið suðu koma upp, lækkið hitann og leyfið að malla í 10 mínútur. Þá er rækjunum stungið ofan í paelluna með halann upp. Látið malla áfram í um 5 mínútur eða þar til kjúklingasoðið hefur að mestu soðið niður.

(ef þið notið skeljar þá er gott að setja þær í á sama tíma og soðið. Takið þær skeljar sem ekki hafa opnað sig eftir 10 mínútur úr áður en rækjunum er bætt við)

Kreystið safa úr hálfri sítrónu yfir og takið pönnu af hita. Setjið viskustykki yfir pönnuna og látið standa í um tíu mínútur.

Berið fram. Gott er að hafa sítrónusneiðar með og góða ólífuolíu. Að maður tali nú ekki um gott hvítvín eða rósavín. Nokkur fín rósavín sem við höfum smakkað nýlega má lesa um hér.

 

Deila.