Guado al Tasso 2016

Bolgheri við vesturströnd Toskana er það víngerðarsvæði Ítalíu sem vakið hefur hvað mesta athygli á síðustu árum. Þorpið Bolgheri er vissulega bara lítið og krúttlegt sveitaþorp en vínin af ekrunum í kringum það eru engin smásmíði. Hér eru vínin oftar en ekki gerð úr frönsku Bordeaux-þrúgunum og þekktust eru vín á borð við Sassicaia, Ornellaia og svo auðvitað Antinori-vínði Guado al Tasso. Piero Antinori og yfirvíngerðarmaður hans Renzo Cotarella hafa gert Guado al Tasso að einu helsta djásni Antinori-fjölskyldunnar og einhverju besta víni Bolgheri. 2016 árgangurinn er með þeim betri sem húsið hefur sent frá sér, blandan er 60% Cabernet Sauvignon og síðan Merlot og Cabernet Franc til helminga. Vínið er svarraut, með dökkum ávexti, sedrusviði og lavender í nefi, afskaplega elegant þrátt fyrir svaðaleg tannín og kraft, vínið er djúpt og þétt, einstaklega aðgengilegt nú þegar en er rétt að byrja, þetta er vín sem vel má geyma í áratug.

100%

12.998 krónur. Stórkostlegt vín, hverrar krónu virði.

  • 10
Deila.