Vín ársins 2020

Árið 2020 var erfitt ár fyrir vínheiminn rétt eins og heiminn yfirhöfuð. Flest öll veitingahús heimsins og hótel hafa verið lokuð, það eru engir ferðamenn sem að streyma til víngerðarsvæðanna sjálfra og stórveislur, brúðkaup og fjölmenn boð hafa verið í lágmarki. Allt hefur þetta haft mikil áhrif á starfsumhverfi vínframleiðenda um allan heim. Sala á kampavíni hefur til dæmis dregist saman um fjórðung á milli ára samkvæmt upplýsingum sem samtök kampavínsframleiðenda sendu frá sér nú fyrir jól.

Aðfangakeðjur flestra vínframleiðenda hafa rofnað að miklu leyti og ekki síst lítil vínhús eiga erfitt uppdráttar við þessar aðstæður. Þau hafa ekki sömu burði og þau stóru til að ná beint til neytenda, t.d. í gegnum netsölu sem hefur sprungið út í heiminum, eða þá með dreifingu alþjóðlega til verslana.

Það hafa líka aðrar hamfarir skeið vínheiminn. Má þar nefna skógareldana í Kaliforníu sem teygðu sig alla leið til Napa og ollu tjóni, bæði vegna þess að ekrur urðu eldi að bráði en ekki síður vegna þess að reykur lagðist yfir vínekrur og hafði áhrif á þrúgurnar.

En allt þetta breytir ekki því að að það hefur aldrei verið framleitt eins mikið af góðu víni í heiminum og mörg þeirra rata hingað til lands. Það ber líka að hrósa vínbúðunum fyrir að hafa brugðist við með því að auka sveigjanleika og framboð á til dæmis sérlistavínum.

Að venju lítum við um öxl í lok árs og rifjum upp nokkur vín sem standa upp úr af þeim sem við höfum smakkað.

Fyrst skal nefna Musar Jeune 2018 sem er vín frá einu magnaðasta vínhúsi heims, Chateau Musar í Beeka-dalnum í Líbanon. Flaggskipið er auðvitað sjálft Chateau Musar en eins og nafn þessa vín gefur til kynna er þetta „ungi“ Musar, vínið er óeikað og ætlað að vera tilbúið til neyslu þegar að það er selt. Rétt eins og stóri Musar er þetta magnað vín, en mjög ólíkt. Chateau-vínið er villt ótemja, einstakt í vínheiminum, Jeune Musar er hins vegar massívt, klassískara, minnir um margt í stílnum á stór suður-frönsk vín. Stórkostlegt vín rétt eins og stóribróðir og kostar einungis 2.999 krónur.

Við höfum smakkað ansi mörg frábær Rioja-vín á árinu og það verður að segjast eins og er að þegar horft er á úrvalið í vínbúðunum þá er Rioja það víngerðarsvæði heimsins sem trekk í trekk gefur hvað mest fyrir peninginn. Nokkur frábær vín sem við höfum fjallað um á síðustu mánuðum eru til dæmis vínin frá Muga, Baron de Ley, Imperial, Lealtanza, Cerro Anon, Artadi, Vina Ardanza og Cune. Vínið sem við ákváðum að draga sérstaklega fram er hins vegar Finca San Martin 2017, vín úr smiðju La Rioja Alta. Þessi árgangur nýtur góðs af því að víngerðarmennirnir ákváðu að gera ekki „stóru“ vínin þetta ár og fóru þær þess í stað allar í Crianza-vínið. Fyrir vikið er þetta vín sem býður gæði langt umfram þær 2.799 krónur sem vínið kostar.

Gratavinum Silvestris 2017 er einnig spænskt og frá öðru af þekktustu víngerðarsvæðum Spánar. Þetta er vínhús Cusine-fjölskyldunnar í Priorat en þessi katalónska fjölskylda á einnig vínhúsin Pares Balta í Pénedes og Dominio Romano í Ribera del Duero. Þau hafa áratugum saman lagt mikla áherslu á lífræna ræktun lífeflda (bíódínamíska) ræktun og hafa einnig verið að fikta við gerð einstakra náttúruvína, þar sem nær engin afskipti eru höfð af víngerðinni sjálfri. Þegar við fjölluðum um vínið á sínum tíma sagði meðal annars: „Ég hef lengi verið fullur fordóma í garð (náttúru)vína enda nær flestöll sem ég hef smakkað fremur einsleit og fráhrindandi, ávöxturinn verður ekki hreinn og það loðir oft við þau gerkeimur og bragð sem minnir helst á skemmdan síder. En ekki hér, þetta er hreinlega framúrskarandi vín, spennandi og svolítið villt, það er mikill x-faktor í gangi hér.“

Þegar við horfum til hvítvína eru það hins vegar þýsk vín sem standa upp úr þetta árið. Framboð þýskra vína hefur ekki verið upp á marga fiska í gegnum árin og margir tengja Þýskaland enn við sæt og óspennandi vín. Riesling er hins vegar í höndum góðra víngerðarmanna einhver magnaðasta þrúga sem til er og hvergi nýtur hún sér betur en í hlíðunum við þýsku fljótin. Við viljum draga hér fram tvö slík hvítvín, mjög ólík en bæði ótrúlega góð. Í fyrsta lagi Erdener Treppchen Riesling Kabinett 2018 frá Ernst Loosen. Þrúgurnar koma af Treppchen-ekrunni við þorpið Erden. Treppchen mætti þýða sem „litlu tröppurnar“ en ekran er mjög brött eins og oft vill verða í bröttum hlíðunum upp af Mósel og voru á öldum áður útbúnar tröppur til að hægt væri að komast að vínviðnum. Þetta vín er algjört sælgæti, enn ungt og ferskt en agnarögn farið að glitta í steinolíuna og hunangið sem einkennir þroskaðri vín.

Stærra, þyngra og mun þurrara er Pechstein Riesling GG 2016 frá Bassermann-Jordan. GG stendur fyrir Grosses Gewächs sem er hugtak sem nokkur af bestu vínhúsum Þýskalands hafa notað síðustu árin. Má segja að þetta sé þýsk útgáfa af því sem að Frakkar nefna „Grand Cru“ þó að þetta sé ekki enn formlegur hluti þýsku vínlöggjafarinnar. Pechstein er ekra við þorpið Deidesheim í Pfalz og einkennist jarðvegurinn af dökku basalti er rekja má til fornra eldsumbrota. Stórkostlegt vín, kryddað, piprað, míneralískt með þéttum þurrkuðum ávexti. Þýskaland upp á sitt besta.

Deila.