Kveðjum 2020

Það hefur líklega sjaldan verið eins mikil eftirvænting hjá flestum að fá loks að kveðja gamla árið. Líklega erum við flest sammála um að 2020 hafi ekki alveg staðið undir væntingum og best sé að reyna að gleyma því sem fyrst. Það þarf mikið að ganga á til að 2021 verði ekki skárra.

Það tengjast mismunandi hefðir áramótunum út um allan heim. Hér eru líklega flugeldar  (að minnsta kosti enn sem komið er) og áramótaskaup það fyrsta sem kemur upp í huga flestra. Ef eitthvað tengir hins vegar veisluhöld um áramót sameiginlegum böndum, að minnsta kosti á Vesturlöndum, þá er það sú hefð að skála fyrir liðnu ári (sem við kannski sleppum í ár) og ekki síður að skála fyrir nýju ári í glasi af góðu kampavíni.

Margir nota orðið kampavín sem samheiti yfir öll freyðandi vín. Þetta sýnir kannski best hversu vel markaðssetning vínbændanna í Champagne hefur tekist í gegnum aldirnar. Það eru hins vegar alls ekki öll freyðivín kampavín þótt öll kampavín séu freyðivín.

Champagne er hérað í norðurhluta Frakklands, austur af París og eru víngerðarsvæðin í kringum hina sögufrægu borg Reims. Þar og í nágrannabæjunum Epernay og Ay eru höfuðstöðvar flestra kampavínsfyrirtækja og teygja kjallarar þeirra sig undir borgina á stóru svæði. Champagne hentar ekkert afskaplega vel til hefðbundinnar vínframleiðslu. Hvítvínin og rauðvínin, sem vissulega eru framleidd, eru vægast sagt ekkert sérstök.

Það eru hins vegar orðnar ansi margar aldir frá því að bændur, eða kannski réttara sagt munkar, uppgötvuðu að með því að koma af stað kolsýrugerjun í flöskunni að lokinni hinni hefðbundnu áfengisgerjun væri hægt að breyta óspennandi vínum í stórkostlegar perlur.

Kampavínshúsin svokölluðu eru flest hver risavaxin og geyma milljónir flaskna í kjöllurum sínum sínum þar sem gangar eru oft margra kílómetra langir. Þetta eru hús með langa og merkilega sögu sem oftar en ekki tengjast með einhverjum hætti sögulegum viðburðum og persónum. Flest stóru húsin geta þannig státað af einhvers konar konunglegum tengslum eða álíka í gegnum sögu sína.

Besti vínin eru mjög þurr – sem á vínmáli er andstæðan við sæt – og eru skilgreint sem Brut. Sum húsin ganga jafnvel enn lengra og framleiða vín sem skilgreind eru sem Zero Dosage eða Extra Brut og eru þau enn þurrari en Brut-vín.

En kampavín eru ekki ókeypis og því horfa margir til annarra svæða. Það eru framleidd frábær freyðivín víða um heim og þau bestu þeirra eru gerð samkvæmt sömu aðferðum og kampavín, það er með kolsýrugerjun í flösku en ekki í tönkum.

Á Ítalíu drekka menn Spumanti eða freyðandi Lambrusco. Spánverjar eru með réttu stoltir af hinum ágætu Cava-vínum sínum sem framleidd eru í Katalóníu. Í flestum víngerðarhéruðum Þýskalands eru framleidd og drukkin Sekt-vín, þau bestu úr Riesling-þrúgunni og í Ástralíu drekka menn gjarnan freyðandi dökkrautt Shiraz-vín um jólin. Um allt Frakkland má finna freyðivín og má þar nefna Crémant-vínin sem framleidd eru í Alsace og Bourgogne.

Með því að smella hér má sjá nokkur góð kampavín og freyðivín sem að við höfum smakkað nýlega og mælum með.

Deila.