
Vietti er gamalgróið vínhús í Castiglioni Falleto í Piedmont sem hefur framleitt vín þar í eina og hálfa öld. Bandaríska Krause-fjölskyldan keypti vínhúsið árið 2016 og bættust þá ekrur sem hún átti í Barolo í sarp Vietti. Þetta vín úr Barbera þrúgunni kemur frá hæðunum í kringum þorpið Asti, en heitið Tre Vigne vísar til þess að þrúgurnar eru ræktaðar á þremur ólíkum ekrum. Þetta er topp Barbera, liturinn er djúpfjólublár, yfirbragð vínsins ungt og ferskt. Í nefinu eru bláber og krækiber ríkjandi, kryddað, sæt lavender-angan. Þetta er ungt og mjög sýruríkt vín, þétt og ferskt. Gefið því tíma til að opna sig. Má vel geyma í 2-3 ár.
90%
3.499 krónur. Frábær kaup. Mjög gott matarvín.
-
9