Gratavinum og vinirnir í Priorat

Vínhéraðið Priorat sem undanfarin ár hefur talist eitt helsta víngerðarsvæði Spánar var lengi vel flestum gleymt og vínrækt nánast aflögð. Á undanförnum árum hefur vínhúsum verið að fjölga í Priorat og meðal þeirra sem að hafa haslað sér völl á svæðinu er Cusine-fjölskyldan sem á vínhúsið Pares Balta í Pénedes-héraðinu.

Það var upp úr aldamótum sem að bræðurnir Joan og Jose Cusine og konur þeirra Marta Casas og Maria Elena Jimenez fóru að skoða fjárfestingu í Priorat í samvinnu við vin þeirra Jordi Fernandez. Þær Marta og Maria eru víngerðarmenn Pares Balta og var Jordi samferða þeim í gegnum háskólann. Vinahópurinn tók sig saman og á nú og rekur vínhúsið Gratavinum. Verkaskipting er sú að Jordi sér aðallega um Gratavinum en María, Marta og Cusine-bræðurnir einbeita sér að fjölskylduvínhúsinu í Pénedes.

Priorat er að finna vestur af borginni Tarragona syðst í Katalóníu, umlukið Montsant-fjallgarðinum sem til skamms tíma gerði samgöngur til og frá svæðinu erfiðar. Nú hefur hins vegar verið bætt úr því og það er í dag rétt um tveggja tíma akstur frá Barcelona til Priorat. Það breytir ekki því að héraðið er enn langt úr alfaraleið, þorpin tíu sem þarna má finna eru lítil og fámenn og það fer ekki mikið fyrir mannlífinu á svæðinu. Í Gratallops þar sem Gratavinum er staðsett búa um 250 manns og þar er að fínna 25 vínhús. Það er því alveg ljóst hver er meginatvinnugrein svæðisins.

Vínrækt er alls ekki ný af nálinni í Priorat, hér líkt og á flestum vínræktarsvæðum Spánar var vínviður ræktaður löngu áður en Rómverjar komu til Íberíu.  Á miðöldum voru valdamikil klaustur umsvifamikil í vínræktinni en nafn héraðsins er dregið af heiti ábótanna, prior.

Aðstæður eru hins vegar erfiðar í Priorat. og það einkennist af bröttum hæðum og grýttum svörtum jarðvegi er nefnist llicorella eða lakkrís með vísun í lit hans. Það var og er erfitt að yrkja ekrurnar og vínrækt var nánast útdauð í Priorat eftir mikil áföll á borð við phylloxera-faraldurinn sem að þurrkaði út vínrækt um gjörvalla Evrópu. Það var vart talið kostnaði að leggja í þá fjárfestingu að rækta upp vínviðinn á ný á eins erfiðum svæðum og Priorat og framan af síðustu öld voru það fyrst og fremst lítil vínsamlög bænda sem að framleiddu einföld vín í héraðinu.

 Allt breyttist á níunda áratug síðustu aldar þegar nokkrir víngerðarmenn áttuðu sig á þeim miklu möguleikum er fælust í hinum gömlu Garnacha og Cariñena-vínviðarrunnum sem var að finna í hæðum Priorat.

Nokkur vínhús, með René Barbier kg Alvario Palacios í broddi fylkingar, fóru að framleiða vín sem eiga sér ekki sinn líka á Spáni. Sannkölluð ofurvín, dökk, tannísk, þung og áfeng, sum þeirra með þyngd á borð við púrtvín. Vín á borð við L‘Ermita frá Palacios  og Espectacle del Monsant frá Barbier urðu fljótt með heitustu vínum Spánar og vínræktin í Priorat vaknaði til lífsins á nýjan leik.

Fyrst um sinn tóku vinirnir á bak við Gratavinum vínekrur á leigu þar sem að erfitt var að fá bændur til að selja land sem oftast hafði verið í fjölskyldueigu kynslóðum saman. Smám saman hafðist það þó og í dag eru 17 hektarar í eigu vínhússins Gratavinum auk þess sem þau kaupa þrúgur frá vínbændum á svæðinu til að nota í vínið 2πr.

Ekrurnar eru flestar á hæðunum í kringum Gratallops og sumar á stöllum eða það sem í Priorat er kallað “costers”. Líkt og önnur vín sem Cusiné-fjölskyldan framleiðir er lögð áhersla á lífræna og lífeflda ræktun og Gratavinum er eitt tveggja Demeter-vottaðra húsa í Priorat. Eitt vín þeirra er án nokkurra afskipta eða svokallað náttúruvín. Það nefnist Silvestris en á katalónsku merkir það villtur gróður. Joan segir að vínið sé villt eins og náttúran í kringum ekrurnar þaðan sem þrúgurnar koma. Vínið 2πr er mun mýkra og fágaðra en Joan segir að þegar rætt sé við eldra fólk á svæðinu um hvernig vínin hafi verið áður fyrr sé þeim oft lýst sem rúnnuðum. Þau hafi viljað gera slíkt vín en heitið 2πr vísar til jöfnunar á bak við ummáls hrings. Það er líka saga á bak við vínheitið Gv5 en tölustafurinn er vísun í vinina fimm á bak við vínið.

Alls nemur framleiðslan hjá Gratavinum 20 þúsund lítrum og það má segja að þetta sé sannkallað „boutique“-vínhús, heildarflatamálið á borð við þokkalegt íslenskt einbýlishús. Smæð er samt eiginlega regla frekar en undantekning í Priorat. Aðstæður til vi´nræktar eru erfiðar og hver runni gefur af sér lítið magn. Hver hektari skilar því ekki mörgum lítrum miðað við gjöfulli svæði en vínin eru á móti gífurlega mössuð og mikil.

Rétt eins og hjá Pares Balta er víngerðin frumleg og nýjungagjörn. Á gólfunum má sjá amfórur og demijohn-flöskur við hliðina á stáltönkum og tunnum. Demijohn eru stór glerílát sem voru áður mikið notuð í víngerð og fundu vinirnir nokkrar slíkar á gömlu býli ´í Pénedes. Íla´tin eru lokuð með tappa og þar sem súrefni kemst ekki að, ólíkt því sem gerist í tunnunum þroskast vínin á annan hátt.

Deila.