Finca de Monasterio 2019

Finca de Monasterio er eitt Rioja-vínunum úr smiðju Baron de Ley. Monasterio er spænska orðið yfir klaustur og finca mætti þýða sem vínhús eða það sem Frakkar kalla „chateau“. Þrúgurnar sem notaðar eru í þetta vín eru einmitt ræktaðar á ekrunum í kringum gamalt klaustur í suðurhluta Rioja, nánar tiltekið við Mendavia í Rioja Baja.

Finca Monasterio er „nútímalegasta“ vínið frá Baron de Ley og það sem minnir mest í stílnum á stór og mikil Nýjaheimsvín, það er meira að segja örlítið af Cabernet Sauvignon í blöndunni þótt Tempranillo sé auðvitað í aðalhlutverki. Sætur og þykkur berjaávöxtur, krækiber, sólber og sultaðar plómur, eikað með dökkum súkkulaði- og kaffitónum, tannískt og kröftugt, þurrt og svolítið míneralískt, langt og mjúkt í lokin. Umhellið.

90%

3.999 krónur. Frábær kaup. Með nautasteik, t.d. Wellington.

  • 9
Deila.