Koehler-Ruprecth Kallstadter Saumagen Riesling Kabinett 2022

Þjóðverjar gera einhver bestu matarvín sem hægt er að hugsa sér og Riesling þrúgan er ekki að ósekju stundum kölluð drottning vínþrúgnanna. Koehler-Ruprecth  hefur ræktað Riesling í kringum þorpið Kallstadt í Pfalz um aldabil og er þekkt fyrir sinn þurra og míneralíska stíl. Einhver bestu vínin koma af Saumagen-ekrunni og þetta Kallstadter Saumagen 2022 er skilgreint sem Kabinett Trocken, en Kabinett-vínin eru fínlegri og léttari en Spätlese-vínin. Víngerð Koehler-Ruprecht er af gamla, þýska skólanum. Gerjunin sjálfsprottin í tunnum og vínin síðan í kjölfarin látin þroskast á stærri ámum. Þarna vantar ekki ávöxtinn, ferskjur, epli og sítrónubörk, í nefinu líka kalk og hunang, ungt og ferskt, sýra sem umlykur góminn. Þetta er vínið fyrir humarinn og graflaxinn.

90%

3.500 krónur. Frábær kaup. Fæst hjá kampavinsfjelagid.is

  • 9
Deila.