Vina Alberdi Reserva 2019

Þegar fjallað er um sígild Rioja-vín eru vínin frá La Rioja Alta með þeim fyrstu sem koma upp í kollinn. Saga vínhússins hófst árið 1890 þegar að fimm fjölskyldur í héraðinu tóku sig saman og stofnuðu Vínfélag Efri-Rioja eða Sociedad Vinicola de La Rioja Alta. Afkomendur þessara fjölskyldna hafa síðan haldið rekstri þess áfram og nú er það sjötta kynslóðin sem er við stjórnvölinn.

Vina Alberdi er eitt af vínum La Rioja Alta sem er í mjög klassískum Rioja stíl, einungis eru notaðar Tempranillo-þrúgur af gömlum vínivið og það er eitt af einkennum vínsins að það er látið þroskast á tunnum úr amerískri eik í tvö ár, jafnt nýjum sem notuðum. Ameríska eikin leynir sér ekki í nefinu, áberandi vanilla og kókos, smá karamella, reykur og rauðir ávextir. Ungt og kröftugt, ferskt, áferðin þykk og mjúk. Hefur gott af því að anda svolítið áður en borið er fram.

90%

3.999 krónur. Frábær kaup. Reynið með nautakjöti og hreindýri. Og auðvitað spænskri skinku.

  • 9
Deila.