Rioja Alta Gran Reserva 904 Seleccion Especial 2015

Þegar fjallað er um sígild Rioja-vín eru vínin frá La Rioja Alta með þeim fyrstu sem koma upp í kollinn. Saga þess hófst árið 1890 þegar að fimm fjölskyldur í héraðinu tóku sig saman og stofnuðu Vínfélag Efri-Rioja eða Sociedad Vinicola de La Rioja Alta. Afkomendur þessara fjölskyldna hafa síðan haldið rekstri þess áfram og nú er það sjötta kynslóðin sem er við stjórnvölinn. Gran Reserva 904 Seleccion Especial er eins sígilt í stílnum og Rioja-vín verða. Þetta er auðvitað Tempranillo en það er 10% af Graciano bætt saman við, vínið geymt fjögur ár á amerískum eikartunnum og síðan fjögur ár á flösku áður en það fer á markað. Núna er árgangurinn 2015 í sölu. Nefið er þroskað og kryddað, sætur, þroskaður berjaávöxtur, sultuð jarðarber, rifsber, leður, kaffi og krydd. Sýran fersk og flott.  Einstaklega mjúkt og langt. Þetta er vínið með nautinu, lambinu, öndinni og hreindýrinu.

100%

10.999 krónur. Frábær kaup.

  • 10
Deila.