Bodegas El Seque er eitt af vínhúsum Artadi, sem er með athyglisverðustu vínhúsum Spánar. Upphaflega var Artadi vínsamlag 13 vínræktenda í Laguardia í Rioja Alavesa en það var athafnamaðurinn Juan Carlos López de Lacalle sem að festi kaup á Artadi og gerði það að því sem að það er í dag, brautryðjandi í framleiðslu nútímalegra vína frá Rioja jafnt sem Navarra og Alicante.
Alicante er vaxandi svæði í spænskri víngerð en víngerðarsvæðin eru í hæðunum innsveitum héraðsins, fjarri strandlífinu sem flestir tengja við Alicante. Monastrell er ein algengasta þrúga héraðsins en þetta er sama þrúga og gengur undir nafninu Mourvédre í Frakklandi.
Vínið er dimmrautt með heitum, sólbökuðum rauðum berjaávexti, þroskuð kirsuber, sólberjasulta, jörð, ávöxturinn er þykkur, sætur og ferskur, eikin heldur vel utan um vínið, það er mjúkt, kryddað og miðjarðarhafslegt.
4.190 krónur. Frábær kaup. Með lambakjöti.
-
10