Slóvakísk gæsaveisla

Ef einhverjir lesendur kynnu að vera á ferðinni í Slóvakíu er skylda að borða gæs, nánar tiltekið ættu menn að á í þorpinu Slovensky Grob við rætur Karpatíufjalla, eina tuttugu kílómetra norðaustur frá höfuðborginni Bratislava. Líklega eru menn hvergi í heimi jafnstoltir af gæsasteikunum sínum og í þessu litla slóvakíska þorpi.

Í Slovensky Grob er sagt að hægt sé að koma við í hvaða húsi sem er. Líklega er hins vegar öruggara að fara á einhvern þeirra veitingastaða sem sérhæfa sig í matreiðslu á gæs og tekst það vel til að gæsirnar frá Slovensky Grob eru meðal þekktustu sælkerarétta Slóvakíu.

Hér áður fyrr var það einungis á föstudögum sem íbúar Slovensky Grob komu gæsunum fyrir í leirpottum og stungu inn í kolahitaða brauðofnana. Á laugardögum var svo farið með fuglana á markaðinn í nærliggjandi þorpum og borgum, jafnvel til höfuðborgarinnar Bratislava. Nú er hins vegar hægt að fá gæsasteik í þorpinu alla daga vikurnar.

Ég myndi sérstaklega mæla með stoppi á einu þessara veitingahúsa sem hefur sérhæft sig í að elda Slovensky Grob gæsina kynslóð fram af kynslóð frá því á þar síðustu öld. Raunar er fimmti ættliður Jajcay-fjölskyldunnar farinn að vinna á veitingastaðnum sem ber hið þjála heiti Pivnica u Zlatej Husi.

Að koma þangað inn er eins og að ganga inn í slóvakískt bændabýli og Jajcay-fjölskyldan kann að taka vel á móti gestum sínum.

Þetta er sveitamatreiðsla eins og hún er einföldust og best. Tveir réttir sem skipta máli. Í forrétt koma föt með heilsteiktum stórum gæsalifrum og í aðalrétt heilsteikt gæs með gullinbrúnum og stökkum hjúp. Meðlætið einfalt, brauð og súrsað grænmeti – að ekki sé nú minnst á flotið úr gæsalifrinni og lokshes, eins konar kartöfluplöttum.

Ekki spillir fyrir að Slovensky Grob er staðsett í helsta vínræktarhéraði Slóvakíu. Vissulega eru vín Slóvakíu ekki meðal þeirra þekktari í Evrópu en hægt er að fá alveg hreint ágæt hvítvín jafnt sem rauðvín – og um að gera að njóta þeirra í Slóvakíu þar sem útflutningur er svo gott sem enginn, heimamenn neyta heildarframleiðslunnar sjálfir.

Vínkjallari Pivnica u Zlatej Husi er með þeim betri á svæðinu.
Ef menn villast af leið er hægt að hringja í 0905 525417 eða þá að sækja leiðbeiningar á heimasíðu staðarins, www.zlatahus.sk

 

Deila.