Kalifornía

Vínrækt í Kaliforníu á sér langa sögu, þótt það sé ekki fyrr en síðasta aldarfjórðunginn, sem kalifornísk vín hafa látið að sér kveða fyrir alvöru. Fyrsti vínviðurinn kom með spænskum trúboðum frá Mexíkó og var gróðursettur við trúboðsstöðvar þeirra. Úr þrúgunum var framleitt sætt messuvín, yfirleitt úr Mission-þrúgunni. Þegar stjórnvöld í Mexíkó lögðu stöðvarnar niður árið 1830 lagðist vínrækt sömuleiðis af. Skömmu síðar öðlaðist Kalifornía sjálfstæði frá Mexíkó og evrópskir innflytjendur fóru að flytja inn vínvið.

 Ungverjinn Agoston Haraszthy er þekktastur þeirra og gjarnan kallaður faðir kalifornískrar vínræktar. Árið 1860 flutti hann inn 100 þúsund græðlinga af samtals 300 tegundum vínviðar frá Evrópu og gróðursetti í Sonoma. Er vínbúgarður hans, Buena Vista, enn starfræktur. Vínrækt blómstraði á áratugunum þar á eftir og var í stöðugri sókn allt fram til ársins 1918 er bannlögin voru sett og framleiðsla og sala áfengis varð óheimil. Þrátt fyrir að undanþága hafi verið veitt fyrir framleiðslu messuvína og fjölskyldur mættu framleiða vín til einkanota dugði það ekki til að bjarga víniðnaðinum. Áfengisneysla Bandaríkjamanna færðist yfir í ólöglegan landa og vínbændur, sem sátu uppi með þrúgur, sem ekki var hægt að gera vín úr, brugðu búi eða sneru sér að rúsínuframleiðslu. Eftir afnám bannlaganna árið 1933 tók vínframleiðsla við sér á ný en það er hins vegar ekki fyrr en á síðustu 25–30 árum að víniðnaðurinn fer að taka á sig núverandi mynd.

Fram á sjöunda áratuginn var litið á vín sem drykk evrópskra innflytjenda og vínrækt sem óarðbæran landbúnað. Upp úr miðjum sjöunda áratugnum fór þetta að breytast, framtakssamir áhugamenn fóru að fjárfesta í víngerð og brautryðjandi rannsóknir víndeildar Davis-háskóla leiddu til þess að ný og fullkomin víngerðartækni fór að þróast í Bandaríkjunum.

Það var þó ekki fyrr en í maí 1976 sem kalifornísk vín fóru að njóta alþjóðlegrar viðurkenningar. Þá var haldin smökkun á Hotel Intercontinental í París þar sem nokkrir af helstu vínsérfræðingum Frakklands smökkuðu Kaliforníuvín blint á móti frægustu vínum Bordeaux og Búrgund. Þegar hulunni var svipt af flöskunum kom í ljós að Stag’s Leap Cabernet Sauvignon 1973 hafði sigrað Bordeaux-vínin og Château Montalena Chardonnay 1973 hvítu Búrgundarvínin. Þrátt fyrir skelfingaróp Frakkanna varð ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að Kaliforníuvínin höfðu komið sér á kortið. Margar sambærilegar smakkanir hafa verið haldnar síðan og það kemur engum lengur á óvart að Kaliforníuvín hreppi toppsætin.

Niðurstöður Parísarsmökkunarinnar beindu athyglinni að Napa og neytendur og fjárfestar fóru að gefa vínunum gaum. Vínræktin fór á flug og út um alla Kaliforníu fóru að spretta upp lítil víngerðarhús, sk. boutique wineries, þar sem áhugasamir einstaklingar kepptust við að framleiða vín í hæsta gæðaflokki.

Þrátt fyrir uppganginn í vínræktinni áttu Bandaríkjamenn langt í land með að verða vínneysluþjóð í evrópskum skilningi. Vínneysla er bundin við afmörkuð svæði. Hún er útbreidd á vesturströndinni og  á austurströndinni aðallega í stórborgum: New York, Boston, Fíladelfíu, Washington og Atlanta. Flórída er jafnframt sterkur vínmarkaður vegna fjölda ferðamanna og þeirrar staðreyndar að þúsundir íbúa af norðausturströndinni setjast þar að á efri árum. Á öðrum svæðum Bandaríkjanna er bjór- og bourbon-neysla meira áberandi.

Tvö héruð skera sig úr þegar kalifornísk vín ber á góma, Napa og Sonoma, en þau er bæði að finna norðvestur af borginni San Francisco. Meirihluta starfandi vínfyrirtækja í Kaliforníu er hins vegar að finna á öðrum svæðum og það er ekki síst þar, sem mesta aukningin hefur orðið í vínrækt. Ræktunarsvæðin í Napa og Sonoma eru nokkurn veginn fullnýtt og því leita vínfyrirtæki stöðugt að nýjum og spennandi svæðum, þar sem hægt er að búa til smækkaðar eftirmyndir af Napa. Þótt höfuðstöðvar stóru vínfyrirtækjanna séu í Napa eða Sonoma kemur stór hluti vínanna, sem þar er hægt að bragða á, yfirleitt af öðrum svæðum.

Í grófum dráttum má skipta vínrækt Kaliforníu niður á fimm svæði. Í fyrsta lagi North Coast, sem er svæðið norður af San Francisco en þar er m.a. að finna vínræktarhéruðin Napa, Sonoma og Mendocino. Bestu rauðvín Kaliforníu koma óumdeilanlega frá Napa og í auknum mæli er farið að bera á vínum er bera nöfn svæða innan Napa. Ástæðan er sú að eftir því sem árin líða átta menn sig betur á því hvar bestu aðstæðurnar eru. Ef staðarheitin Stags Leap, Oakville, Howell Mountain eða Rutherford sjást á flöskumiðanum er það yfirleitt trygging fyrir gæðum. 

 

Deila.