Rhône – Châteauneuf-de-Pape

Þekktustu vín Rhône, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar, koma tvímælalaust frá Châteauneuf-de-Pape, litlu þorpi á hæð á vesturbakka Rónar á milli borganna Orange og Avignon.

Margt gefur Châteauneuf sérstöðu. Í fyrsta lagi jarðvegurinn, sem er blanda af kvartssteinum og sendnum, rauðum leir. Ekki síst er þorpið þekkt fyrir grjótið er þekur flestar ekrurnar, stundum stórir og myndarlegir hnullungar. Steinarnir hafa mikil áhrif á vínræktina, þeir hitna á daginn og halda hitanum í sér yfir nóttina og mynda þar með eins konar bökunarofn. Þetta er jafnframt þurrasti hluti Côte de Rhône svæðisins og sólarstundir eru 2.800 á ári, sem er svipað og í Gigondas og Vacqueyras.

Nafn Châteauneuf-de-Pape má rekja til fjórtándu aldar er páfar höfðu aðsetur í Avignon og dvöldust á sumrin í Châteauneuf. Þorpið gegndi því svipuðu hlutverki og Castelgandolfo fyrir utan Róm gerir nú. Sjö páfar í röð höfðu aðsetur í Châteauneuf og stuðluðu þeir dyggilega að uppbyggingu vínræktar þar.

Strangar reglur voru fljótlega mótaðar um vínrækt og víngerð á þessu svæði og Châteauneuf var að sumu leyti fyrirmynd AOC-kerfisins franska þegar að það var sett á laggirnar.

Þess má geta að fyrsti páfinn er hafði aðsetur í Châteauneuf og hafði frumkvæði að byggingu hallarinnar var Clément V. Hann var áður biskup í Bordeaux og gaf borginni vínekrur sínar þar er hann gerðist páfi, þær eru enn kenndar við hann, Pape-Clément.

Châteauneuf nær yfir eina 3.200 hektara og ársframleiðslan nemur 100 þúsund hektólítrum að meðaltali. Leyfilegt er að nota þrettán þrúgutegundir þótt fæstir noti þær allar. Helstu tegundirnar í dag eru Grenache, Cinsault, Mourvédre, Syrah, Muscardin, Counoise, Clairette og Bourboulenc. Grenache er yfirleitt stærstur hluti blöndunnar, á bilinu 40-60%, en sú þrúga gefur mýkt og fágun. Nokkrir framleiðendur nota einungis Grenache og má nefna Chapoutier og Rayas sem dæmi, en vínin frá síðarnefnda framleiðandanum eru þau eftirsóttustu á svæðinu. Ef vínviðurinn er gamall og uppskerumagnið lítið gefur Grenache af sér stórfengleg vín við réttar aðstæður eins og þær eru í Châteauneuf þótt yfirleitt sé hún þekktari fyrir að vera uppistaða einfaldra neysluvína á borð við Côtes-de-Rhône. Hver framleiðandi hefur sinn stíl, sína blöndu, og þrúgufjöldinn gerir að verkum að menn hafa mikið svigrúm til að þróa persónulegan stíl. Það er því vart hægt að tala um dæmigerð Châteauneuf-vín. Almennt má þó segja að þau séu dökk og áfeng með flókna ilmkörfu, mjúkan ávöxt, leður og lakkrís og þurfi að minnsta kosti fimm ára geymslu.

Þannig eru vín Perrin-fjölskyldunnar, sem á Château Beaucastel, eitt af virtustu vínhúsum Châteauneuf, vín þar sem Mourvédre gegnir ekki minna hlutverki en Grenache. Beaucastel-vínin eru í hinum klassíska, þunga Châteaneuf-stíl, vín er þurfa langan tíma til að ná þroska. Engin ný eik, engin síun, gamall vínviður, lífræn ræktun og einstakur jarðvegur er uppskrift Perrin-bræðra. „Til að gera vín sem hægt er að drekka ung þarf maður ekki annað en nútímalega tækni,“ segir François Perrin og hellir Beaucastel 1978 í glösin. „Þegar maður er svo heppinn að hafa jarðveg sem gefur þetta af sér ber manni skylda til að vinna úr því þó svo að vínin þurfi langa geymslu. Við verndum hefðina, okkar vín eru vin tardissant, seinþroska vín,“ segir hann og glottir illkvittnislega.

 

 

Deila.