Rhône – Côte Rôtie og Condrieu

Ef ekið er í suðurátt í gegnum Lyon og Vienne birtast fyrstu vínekrur Rhône-dalsins fljótlega eftir að komið er að þorpinu Ampuis. Í bröttum brekkum er snúa móti suðaustri liggja vínekrur Côte Rôtie, einhvers besta víngerðarsvæðis Frakklands. Côte Rôtie er hinsvegar lítið svæði og ná ekrurnar einungis yfir 180 hektara á 3,5 kílómetra löngu svæði meðfram þjóðveginum. Einungis eru framleidd rauðvín í Côte Rôtie og líkt og á öðrum svæðum í norðurhluta Rhône er einungis leyfilegt að nota eina rauða þrúgu, Syrah. Samkvæmt gamalli hefð er hins vegar einnig leyfilegt að blanda vínin með hvítu Viognier-þrúgunni, en það hlutfall má þó ekki fara yfir tuttugu prósent. Þetta er eitt elsta vínræktarhérað Frakklands þótt menn greini enn á um hverjir það hafi verið er hófu vínrækt á þessum slóðum. Samkvæmt sumum kenningum voru það Grikkir en aðrir hallast að því að Rómverjar hafi fyrst gróðursett vínvið í grennd við Ampuis.

Vínekrur Côte-Rôtie skiptast í tvo hluta, Côte Brune og Côte Blonde. Samkvæmt þjóðsögum svæðisins átti valdamikill aðalsmaður, er bjó á þessum slóðum á miðöldum, tvær dætur, aðra ljóshærða, hina dökkhærða og var ekrunum skipt á milli þeirra. Þeir sem ekki trúa á þjóðsögur telja hins vegar að skýringuna á nafngiftinni sé að finna í jarðvegi vínekranna. Á ekrum Côte Brune er jarðvegurinn rauðleitur, sem má rekja til hás járnhlutfalls, en á ekrum Côte Blonde er hann ljósari þar sem kalksteinn er fyrirferðarmeiri. Svæðin tvö gefa jafnframt af sér töluvert ólík vín. Vínin frá Côte Brune eru dekkri, tannískari og þurfa töluvert lengri tíma til að ná þroska. Vín Côte Blonde eru ljósari, mýkri og fágaðri og ná þroska fyrr. Flest Côte Rôtie vín eru blanda af Brune og Blonde en bestu vínin koma frá smærri ekrum innan þessara tveggja svæða.

Ekki er hægt að fjalla um Côte-Rôtie án þess að minnast á Marcel Guigal er tók við stjórn fjölskyldufyrirtækisins E. Guigal af föður sínum á sjöunda áratugnum. Líklega hefur enginn einn maður gert meira fyrir þetta víngerðarsvæði og raunar gætir áhrifa hans ekki bara um Rhône-dalinn allan heldur um víngerðarheiminn í heild. Bestu vín Guigal eru einhver eftirsóttustu vín veraldar og jafnvel þau einfaldari halda ávallt einstökum gæðum. Þegar rætt er við víngerðarmenn í Rhône kemur nafn Guigal óhjákvæmilega upp, hann er mælistika alls, viðmiðunin sem allir taka mark á. Vissulega gætir stundum öfundar en flestir telja hann þó vera einn mikilvægasta fulltrúa héraðsins.

Fyrirtækið þar sem Marcel Guigal tók við stjórn á sínum tíma framleiddi hins vegar einungis þrettán þúsund flöskur á ári. Sú framleiðsla hefur margfaldast og nú nemur ársframleiðsla fyrirtækisins um þremur milljónum flaskna. Það var einkum á níunda áratugnum sem fyrirtækið blés út og náði að treysta stöðu sína er vín þess voru uppgötvuð á hinum eftirsóttu mörkuðum í Japan og Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir að Guigal selji nú vín frá flestum svæðum Rhône þá eru það fyrst og fremst Côte Rôtie-vín hans af ekrunum þremur La Mouline, La Landonne og La Turque sem standa upp úr. Ólýsanleg vín sem búa yfir þvílíkum fítonskrafti og dýpt að þau geta keppt við hvaða vín sem er í heiminum. Þegar ég smakkaði þessi vín með Guigal sagði hann að 35-40 ára geymsla væri „hæfileg“. Ekki er því ráð nema í tíma sé tekið, þ.e. ef mönnum tekst að komast yfir þessi vín á annað borð.

Þegar ekrum Côte Rôtie sleppir tekur við annað enn minna svæði, Condrieu. Brekkurnar verða enn brattari og líkt og í Côte Rôtie eru þær í stöllum. Hér er eitthvert sérstæðasta og sjaldgæfasta hvítvín Frakklands framleitt úr þrúgunni Viognier sem gefur af sér heillandi, framandi og yfirþyrmandi vín sem öðru fremur einkennist af apríkósum. Sérstaða Condrieu-vínanna er raunar svo mikil að erfitt getur verið að velja með þeim mat. Yfirleitt eiga þau þó vel við gæsalifur, hvítt kjöt og fisk í rjómasósu. Viognier-þrúgan hefur verið ræktuð í Condrieu í tvö þúsund ár en til skamms tíma var hana hvergi annars staðar að finna. Upp á síðkastið hafa víngerðarmenn hins vegar gert tilraunir með Viognier á fleiri stöðum í heiminum, með misjöfnum árangri þó.

 

 

Deila.