Sjávarspörfuglar á spjóti

Þessi einfaldi réttur er frá Mörkum eða Marche-héraði á Adríahafsströnd Ítalíu, og þótt fiskitegundirnar í Adríahafinu sé aðrar en þær sem sem við þekkjum við Íslandsstrendur er einfalt að aðlaga réttinn og nota það hráefni sem hér gefst. Þessi réttur er dæmigerður fyrir ítalska matarhefð, – ekki gera flókna huti þegar þeir geta verið einfaldir.

Nafnið á réttinum er uccelletti, sem þýðir smáfugl eða spörfugl , og er dregið af því að spjótin minna dálítið á smáfugla þegar búið er að grilla þau.

Víða í Marka-héraði er notast við ferska brauðmylsnu og fínsaxaða steinselju sem er sáldrað yfir rétti til að gefa þeim meira bragð.

800 gr. af fiskmeti. Mælt er með kolkrabba, mismunandi tegundum af smokkfiski, stórri rækju (sem í Adríahafinu getur verið áþekk íslenskum humri að stærð), hörpuskel o.fl. Hér er gott er að bæta við t.d. skötusel, humri og jafnvel hæfilega skornum stórlúðubitum.

  • 150 gr. af ferskri hvítri brauðmylsnu (eða t.d. lífrænu spelt-raspi sem nú er fáanlegt)
  • 3 matskeiðar fínt söxuð steinselja.
  • salt og pipar
  • ólívuolía til penslunar
  • sítróna til að kreista yfir í lokin

Skerið fiskinn í passlega stóra bita og þræðið á grilltein, og gætið að því að bitarnir séu nægjanlegaq stórir til að þola að vera á grillinu dálitla stund, en það er rétt að hafa í huga að smokkfiskinn – sem er þverskorinn í ca. 0,5 cm. breiða hringi – þarf að grilla í hæfilegan tíma, hann má hvorki vera of hrár né of þurr. Sama gildir auðvitað um humarinn, hörpuskelina og skötuselinn.

Blandið saman brauðmylsnunni og steinseljunni, saltið og piprið, og penslið síðan brauðmylsnuna á spjótin hringinn í kring.

Grillið í nokkrar mínútur, snúið títt og penslið með ferskum sítrónusafa og ólívuolíu jafnóðum, og látið brauðmylsnuna brenna örlítið. Berið svo strax fram með sítrónusneiðum.

Kjörið að drekka vel kælt hvítvín frá Adríahafinu eða Sikiley með, t.d. Verdicchio frá Marka-héraði, vín frá Púglíu eða Basillicata, eða t.d. einföld vín úr Grillo- eða Cataratto-þrúgum frá Sikiley.

 

Deila.