Lambafile með kantarellum og steinseljumauki

Þetta er frönsk útfærsla á því hvernig elda má lambafile eða mignonette d’agneau eins og það heitir á frönsku. Það er ekki flókið að elda þennan rétt en mikilvægt að gera nokkra hluti í einu til að allt sé heitt þegar það kemur á borðið.

 • 4 stk lambafile (um eitt kíló)
 • 6 pokar steinselja (um 300 g)
 • 2 skalottulaukar, fínsaxaðir
 • 2 hvítlauksrif, pressuð
 • 2 dósir þurrkaðir kantarellusveppir
 • 2,5 dl rjómi/matreiðslurjómi
 • 1/2 dl vínedik
 • 1 dl hvítvín
 • smjör
 • salt og pipar

Aðferð

 1. Bleytið upp í sveppunum samkvæmt leiðbeiningum.
 2. Hreinsið fitu og sinar af lambafile-sneiðunum. Kryddið með salti, pipar og timjan.
 3. Skerið stilkana af steinseljubúntunum.
 4. Sjóðið vatn í stórum potti. Setjið steinseljuna í sjóðandi vatnið og sjóðið í um tvær mínútur. Síið allt vatn frá og saxið steinseljuna. Hitið smjör á pönnu og steikið annan skalottulaukinn í 2-3 mínútur. Bætið steinseljunni út í og blandið vel saman.  Saltið og piprið. Hellið 1 dl rjóma saman við og látið malla í smástund eða þar til rjóminn fer að þykkna. Slökkvið á hitanum og haldið steinseljunni heitri.
 5. Hitið smjör á pönnu og steikið lambið í um 3 mínútur á hvorri hlið. Takið kjötið af pönnunni og haldið heitu.
 6. Bætið við smjöri, 1-2 msk á pönnuna og svissið hvítlauk  og skalottulauk í 2-3 mínútur. Bætið þá sveppunum út og steikið í 3-4 mínútur. Saltið og piprið varlega.
 7. Takið sveppina af pönnuna og geymið.
 8. Hellið skvettu af góðu vínediki á pönnuna og sjóðið hratt niður. Bætið þá hvítvíninu út á og sjóðið niður um 2/3. Þá er 1,5 dl rjóma bætt út á. Látið malla í 1-2 mínútur og setjið þá sveppina aftur á. Leyfið að malla þar til sósan er farin að þykkjast og sveppirnir eru orðnir heitir.
 9. Skiptið steinseljunni á fjóra diska, smá haug í miðjunni á hverjum.
 10. Skerið niður kjötið og raðið á diskinn.
 11. Setjið sveppina í sósunni í kringum diskinn. Berið strax fram.

Hér þarf gott rauðvín, franskt Bordeaux-vín er t.d. kjörið og má mæla með Chateau Teyssier. Einnig er mjög gott að hafa bakaða kartöflubáta með.

Deila.