Fyrst þarf að skýra nokkur atriði. Sú Trípolí sem flestir kannast við og hefur verið hvað mest í fréttum er höfuðborg Líbýu. Það þekkja færri hafnarborgina Trípolí í Líbanon en þaðan kemur þessi uppskrift. Hún heitir á Samke Harra á arabísku. Þá verður að taka fram að auðvitað er það ekki þorskur sem að þeir í Trípolí nota í réttinn. Sjávarfangið fyrir votni Miðjarðarhafs er ekki það sama og í Norður-Atlantshafinu. Það var hins vegar niðurstaðan að þorskur væri sá fiskur sem kæmist næst þeim fiski sem notaður er (og er jafnvel betri).
Samke Harra er vinsæll veisluréttur í Líbanon og borinn fram á fati í brúkaupum og við önnur hátíðleg tækifæri. Þessi uppskrift er fyrir 6.
- 2 kíló þorskur
- 2 heilir, stórir og vænir hvítlaukar
- 3 dl Tahini
- 3 dl furuhnetur
- 3 dl nýpressaður sítrónusafi
- 2 msk kóríanderkrydd
- 1 msk cummin
- 1 tsk chiliflögur
- 1 búnt flatlaufa steinselja
- sítrónur/sítrónusneiðar
Setjið fiskinn í eldfast mót. Penslið með ólífuolíu. Setjið nokkrar sítrónusneiðar yfir og eldið við 175 gráður í um 25 mínútur.
Steikið furuhnetunum í 2 msk af ólífuolíu á pönnu þar til að þær byrja að taka á sig lit. Passið mjög vel upp á að þær brenni ekki. Það þarf ekki langan tíma.
Maukið helminginn af furuhnetunum, t.d. í morteli.
Pressið alla hvítlauksgeirana og blandið síðan saman í potti við sítrónusafann, tahini, kóríander, cummin chili, salt og 1 líter af vatni. Hitið upp að suðu, hrærið allan tímann í. Þegar suðan kemur upp lækkið þið hitann og setjið maukuðu furuhneturnar út í. Látið sósuna malla í um 15 mínútur í viðbót, hrærið allan tímann.
Setjið fiskinn á fat og hellið sósunni yfir. Skreytið með fínt saxaðri steinseljunni og hinum helmingnum af furuhnetunum og sítrónusneiðum.
Berið fram með t.d. hummus, tabbouleh og grilluðu pítabrauði.
Með þessu gott suður-evrópskt hvítvín á borð við Gerard Bertrand Chardonnay.
P.S. Það er hægt að breyta réttinum með því t.d. að nota valhnetur í staðinn fyrir furuhnetur og kóríander í staðinn fyrir steinselju.