Canelloni með spínati og ricotta

Canelloni eru pastarör með fyllingu og yfirleitt þakin sósu, stundum á tómatagrunni, stundum besciamella. Þetta er gömul og góð ítölsk matarhefð sem nýtur líka mikilla vinsælda í ítalsk-ameríska eldhúsinu. Það er best að nota ferskar lasagnaplötur og rúlla þeim upp.

Fylling með spínati og ricotta ásamt tómatasósu er klassísk og góð leið til að elda canelloni.Ricotta fæst t.d. í ostaborðinu í Hagkaup Kringlu og Búrinu og það er líka lítið mál að gera sitt eigið ricotta.

  • 1 pakkning ferskar lasagnaplötur
  • 200 g poki af spínati, saxað fínt
  • 1 lúka af fínsöxuðu basil
  • 1 lúka fínsöxuð steinselja (helst flatlaufa)
  • 400 g ricotta
  • 75 g Parmesan
  • 1 stór fersk mozzarellakúla
  • 3 dl tómatapassata (ítalskt tómatamauk)
  • salt og pipar

Byrjið á því að saxa spínatið, steinseljuna og basil og blanda vel saman. Blandið næst ricotta og vænni lúku af rifnum parmesan saman við. Saltið og piprið.

Skerið lasagnaplöturnar í stærð sem hentar til að fylla og rúlla upp í canelloni-rör. Setjið 3-4 matskeiðar af spínatblöndunni á hvern pastabút og rúllið upp.

Dreifið helmingnum af tómatamaukinu í botninn á ferköntuðu, eldföstu formi. Raðið canelloni-rörunum í formið.

Dreifið hinum helmingnum af tómatamaukinu yfir. Rífið mozzarellakúluna á grófu rifjárni og sáldrið yfir ásamt lúku af rifnum parmesan.

Eldið við 200 gráður í ofni í 30-35 mínútur.

Með þessu gott ítalskt rauðvín á borð við Contrada San Felice.

Deila.