Biscotti með möndlum og sítrónu

Biscotti eru eftirlæti flestra Ítala. Þetta eru möndlutvíbökur sem heimildir eru til um allt frá miðöldum. Hróður þeirra hefur borist víða og heitið biscotti slæddist inn í fleiri tungumál og er fyrirmynd orðsins bisquit eða kexkaka bæði í frönsku og ensku. Biscotti eru yfirleitt bornar fram með kaffi og einnig er vinsælt á Ítalíu að bera þær fram með vin santo sætvíni sem bökunum er dýft ofan í.

  • 150 grömm afhýddar möndlur
  • 135 grömm sykur
  • 2 stór egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt
  • 245 grömm hveiti
  • rifinn börkur af 1 sítrónu

HItið ofninn í 180 gráður. Ristið möndurnar í ofni  i 8-10 mín eða þar til þær taka á sig gullinn lit. Saxið þær gróft og geymið.

Þeytið egg og sykur saman þar til að blandan er orðin þykk (um það bil 5 mín).

Bætið vanilludropunum  og sítrónuberkinum saman við.

Sigtið og blandið hveiti, matarsóda og salti saman í aðra skál. Bætið síðan eggjablöndunni saman við og hrærið saman. Blandið loks möndlunum saman við. Ef deigið er mjög blautt má bæta smá hveiti við eftir þörfum.

Mótið deigið í lengju t.d. um 30 cm langa og 10 cm á breidd. Bakið í 25 mínutur.

Takið lengjuna úr ofninum og leyfið henni að kólna í um 10 mínútur.

Lækkið hitann  á ofninum í 165 gráður.

Skerið lengjuna í um 2 sm þykkar sneiðar. Setjið á bökunarpappír á plötu og bakið áfram í um 10 mínútur á hvorri hlið eða þar til að kökurnar eru orðnar gullnar á lit. Það getur tekið nokkuð lengri tíma en 10 mínútur ef deigið hefur verið mjög rakt. Bakið áfram þar til að þær eru orðnar gullnar og stökkar.

Deila.