Hallveig bloggar: le petit Paris í Ásgarðinum

Ég hafði hugsað mér að grilla (eða þeas fá elskulegan ektamanninn til að grilla.. (hann er jú kóngur Webersins) beikonvafinn skötusel núna um helgina en svo sá ég þetta líka fína tilboð frá vinum okkar og nágrönnum í Kjötbúðinni Grensásvegi á nauti.

Eins og alþjóð veit er fátt sem nálgast  vel hangna, kolagrillaða nautasteik í bragðgæðum og sirloinið sem við keyptum var sérlega bragðgott. Það ættu nánast að vera viðurlög við því að nota nokkuð annað á svona kjöt en olíu, maldon salt og nýmalaðan pipar enda var það einmitt þannig sem við hanteruðum það. Best er að bera á kjötið og krydda það nokkrum klukkutímum fyrir eldun og láta það ná stofuhita áður en það fer á grillið, þá er minni hætta á að kjötið verði seigt.

Það þarf ekki mikið meðlæti með svona steik, best er að hafa góða kartöflumús, dijonsinnep á kantinum og gott rautt í glasi en svoleiðis vill fransmaðurinn einmitt hafa það. Þið megið sosum henda einhverju grænu með á diskinn en haldið mér fyrir utan þesslags pjatt.

Ég hef verið að þróa hina fullkomnu kartöflumús síðustu ár og tel mig vera komin niður á ansi góða grunnuppskrift sem svo er bragðbætt mismunandi eftir því hvað ég á til í búrinu eða garðinum. Músin í gær var sannkölluð station útgáfa enda á ég nokkrar kryddtegundir í garðinum og æðislega truffluolíu, örvæntið þó ekki ef þetta er ekki til, músin er dásamleg þó engar séu trufflurnar og bara ein tegund af fersku kryddi! Eins gerist ekkert hræðilegt þó þið notið venjulegan gulan lauk í stað skallottulauksins. Ég nota svo stundum meiri rjóma, jafnvel venjulegan á stórhátíðum og sleppi mjólkinni, í gær átti ég bara ekki meiri rjóma svo mjólkin kom í staðinn!

En allavega, hér kemur músin eins og hún kom af kúnni í gær:

  • 4-5 stórar bökunarkartöflur, afhýddar og skornar í fjóra hluta
  • 150 ml kaffirjómi
  • 100 ml mjólk
  • 75 gr smjör
  • 4-5 skallottulaukar saxaðir fremur smátt
  • 2 hvítlauksrif mjög smátt söxuð
  • ferskt timan og oregano, nokkrar greinar af hvoru, blöðin tekin af og söxuð
  • lárviðarlauf
  • salt
  • 1 msk Truffluolía

setjið vel af vatni í pott og setjið kartöflurnar út í, eins lárviðarlaufið og ríflega af salti og hitið að suðu. Sjóðið kartöflurnar í 20 mínútur.

Bræðið á meðan smá smjörklípu í minni potti og mýkið laukinn, hvítlaukinn og kryddjurtirnar í nokkrar mínútur (gott er að setja nokkra dropa af olíu með til að varna því að smjörið brenni). Bætið svo rjómanum, mjólkinni og afgangnum af smjörinu út í og hitið að suðu, passið samt að það sjóði ekki.

Þegar kartöflurnar eru soðnar er vatninu hellt af þeim og þær maukaðar með tilheyrandi áhaldi, rjómablöndunni blandað saman við og í lokin er truffluolíunni dásamlegu dreypt yfir. Smakkið til með maldon salti.

Með þessari dýrð allri drukkum við svo eitt uppáhalds „hversdags“vínið okkar, Cabernet-Malbec frá Trivento. Það er silkimjúkt en bragðmikið og er að mínu mati einhver bestu kaup í ríkinu en flaskan kostar aðeins 1899 kr.

Bon appetit!

Deila.