Steingrímur bloggar: Lieux-dit í Saint Veran

Það eru nokkur hugtök sem að maður þarf að átta sig á til að skilja viðhorf Frakka til víns og ekki síður hvernig frönsk vín eru flokkuð, skilgreind og í raun hvað þau „eru“. Tvö lykilhugtök í þessu sambandi eru „climat“ og „lieu-dit“ og hvergi gefast betri aðstæður til að sjá þessi hugtök í aksjón en í Búrgund.

Byrjum á hugtakinu „climats“ sem er Búrgundarhugtakið yfir það sem víða annars staðar í Frakklandi er kallað „terroir“. Með þessu er vísað til afmarkaðs svæðis – í þessu tilviki auðvitað vínekru – þar sem á nákvæmlega tilgreindu svæði eru tilteknar veðurfræðilegar (micro-climate) og jarðfræðilegar aðstæður sem í samspili við hugvit mannsins mynda kjöraðstæður fyrir vínræktina, en í Búrgund merkir það ræktun annað hvort rauðu þrúgunnar Pinot Noir eða hvítu þrúgunnar „Chardonnday“.

Smám saman byrjuðu menn að nefna þessa bletti og fyrst dæmið er talið vera ekran Cloz de Béze í þorpinu Gevrey á áttundu öld. Það að „nefna“ ekru er í Búrgund kallað „lieux-dit“. Árið 1936 vrað þetta fest í ákveðið regluverk (Appelation d’Origine Controlée eða AOC) og í Búrgund eru bestu ekrurnar flokkaðar sem „Grand Cru“ og þær næst bestu sem „Premier Cru“. Meðal þekktustu ekranna eru Montrachet, Chambertin, Clos Vougeot og Musigny, að ekki sé nú minnst á La Tache.

En nú var ferðinni heitið til Macon syðst í Búrgund, rétt norðan við borgina Lyon sem er eina svæðið í Búrgund þar sem er ekki að finna neinar ekrur flokkaðar sem „Cru“.

Samt eru þarna ekrur sem vafalítið eiga það svo sannarlega skilið. Sjálft svæðið Macon er mjög dreift og ekrur þar eru á mjög misjöfnum svæðum, þær allra bestu eru í þorpunum rétt norðaustan við Macon. Þarna er líka að finna svæðið Pouilly-Fuissé sem ég fjallaði um nýlega og hvítvínssvæðið Saint-Véran, sem er ekki síður athyglisvert.

Jarðvegurinn í Saint-Véran er jarðfræðilega mjög gamall, rétt eins og í Pouilly og varð til þegar að sjór þakti svæðið fyrir um 150 milljónum ára. Það hvers eðlis jarðvegurinn er á einstaka ekrum má rekja til þess hvenær hafið hopaði fyrir landi. Ekrurnar eru fullar af steingervingum, kuðungum og skeljum.

Emeline, sem sér um vínræktina hjá vínsamlaginu Les Caves Terres Secretes, lang stærsta framleiðanda svæðisins, sýnir okkur nokkrar mismunandi ekrur og hversu ólíkar aðstæðurnar eru. Jarðvegurinn er alls staðar mjög grýttur og ekki langt niður á hart bergið. Á einni ekrunni, Les Cras, sem er efst á suðausturhæð, eru einungis 30 sm niður á berg. Þetta er einmitt sú ekra sem talsmenn svæðisins telja vera helsta kandídatinn í að verða Premier Cru á svæðinu.

Í smökkun hjá Terres Secretes koma skýr einkenni einstakra ekra og svæði greinilega fram. Les Cras-vínin eru þung, míneralísk og mikil en ekki síður koma vínin frá þorpinu Saint-Véran Verze vel út.

Það er ekki skrýtið að framleiðendur þarna berjist hart fyrir því að fá Premier Cru-skilgreiningu á bestu ekrurnar.

Deila.