Vín ársins 2013

Þetta er í fimmta skipti sem að við veljum vín ársins. Og alltaf er það jafn erfitt, það eru svo mörg sem kæmu til greina. Það verður hins vegar að vera eitt vín sem verður að lokum fyrir valinu. Frá upphafi hef ég reynt að velja vín sem eru ekki bara frábær (það væri svo auðvelt að velja bara alltaf eitthvað stórkostlegt Bordeaux eða Búrgundarvín) heldur hafa jafnframt eitthvað fram að færa. Bæta við vínmenninguna, eru forvitnileg, spennandi, á góðu verði og auðvitað framúrskarandi góð. Sömuleiðis höfum hef ég síðastliðin ár valið eitt rauðvín og eitt hvítvín sem eru einstaklega góð kaup þegar tekið er mið af hlutfalli verðs og gæða.

Fyrsta vín ársins hjá okkur var Montes Purple Angel Carmenere, næst ítalska ofurfreyðivinið Ferrari Maximum Brut, þá spænska rauðvínið Tres Patas frá hinu spennandi, litla vínhúsi Bodegas Canopy í Mentrida og í fyrra var það suður-franska vínið Pic-St.Loup frá Gerard Bertrand.

vin arsins mouton

 

Þetta er búið að vera víðburðaríkt ár og það hafa mörg stórkostleg vín verið smökkuð. Upp úr standa til dæmis mörg þeirra vína sem smökkuð voru í ferð til Bordeaux og Languedoc í janúar þar sem m.a. var safnað efni í bókina Vín – frá þrúgu í glas, sem kom síðan út í haust. Þar gafst m.a. kostur á að smakka 2009 og 2010 árgangana hjá nokkrum af bestu vínhúsunum á borð við Pichon Baron og Cheval Blanc. Sérstaklega minnistæð er smökkun í Pichon með Christopher Sealy þar sem hinn ótrúlegi 2010 árgangur stóð upp úr og síðdegi með Pierre Lurton í Cheval Blanc þar sem að ég féll í stafi yfir 2009 víninu – að öðrum árgöngum ólöstuðum. Spánn var tekinn fyrir í maí, m.a. með heimsókn á Fenavin og til Ribera del Duero og í júní var það Frakkland á ný með hringferð um Búrgund, Rhone og Bordeaux. Nokkrir hápunktar voru smökkun á öllum vínum Guigal með þeim feðgum Philippe og Marcel Guigal og kvöldverður í Mouton-Rothschild, sem ávallt er mikið sjóv og mikil upplifun.  Um ferðina má lesa hér.

Þótt margt gott hafi verið smakkað á árinu er það hins vegar vínin sem komu í vínbúðirnar á árinu og fjallað hefur verið um, sem eru í púkkinu þegar vín ársins eru annars vegar.

Librandi BiancoÞað má nefna all nokkur hvítvín sem að smökkuð voru á árinu og koma til greina sem bestu hvítvínskaupin. Til að mynda hin stórkostlegu hvítvín frá argentínska vínhúsinu Zorzal. Þetta er lítið framúrstefnuhús í Tupungato í Mendoza, það vínhús héraðsins sem liggur hæst yfir sjávarmáli. Ég átti þess kost að smakka flest öll vín Zorzal með víngerðarmanni hússins og þau eru öll áhugaverð, sum algjörlega stórkostleg. Zorzal Chardonnay er með bestu kaupunum í vínbúðunum, frábært vín á frábæru verði. Annað vín sem heillaði var Vermentino-vínið La Pettegola frá Banfi. Vermentino-þrúgan er forvitnileg, hún er aðallega ræktuð á Sardiníu en hefur einnig verið að festa sig í sessi í toskanska strandhéraðinu Marema, þar sem Pettegola er einmitt framleitt. Bestu hvítvínskaupin felast hins vegar að þessu sinni í öðru ítölsku hvítvíni, hinu suður-ítalska Ciró Bianco frá Librandi. Ég hef lengi verið heillaður af suður-ítölskum hvítvínum, hvort sem er frá Kampaníu eða Sikiley. Ferskleiki þeirra og ilmkarfa er heillandi og þetta vín frá Kalibríu úr Greco-þrúgunni er algjörlega í þeim anda. Og á frábæru verði, rétt undir tvö þúsund kallinum.

Finca resalsoÍ rauðvínum koma sömuleiðis nokkur afbragðs vín til greina sem bestu rauðvínskaupin. Það mætti nefna tvíburavínið Montes Twins þar sem þrúgurnar Malbec og Cabernet Sauvignon spila saman. Tveir fyrstu árgangarnir af þessu víni komu í búðirnar á árinu, vínin hvert öðru betra miðað við verð. Ég myndi líka nefna Vidal-Fleury GSM, virkilega nútímalegt og athyglisvert suður-franskt rauðvín á frábæru verði. Það er líka svo ánægjulegt að sjá hvað Suður-Frakkland, sem að ég hef lengi hrifist af og borið svo miklar vonir til, er farið að blómstra í vínúrvalinu í vínbúðunum, hvort sem er með vínum frá suðurhluta Rhone eða Languedoc-Roussillon. Bestu rauðvínkaupin eru hins vegar engu að síður á þessu ári í rauðvíni frá einhverju besta héraði Spánar, Ribera del Duero. Það er rúmt ár frá því að einum helsta framleiðanda svæðisins, Emilio Moro, komu fyrst í sölu. Moro og systurfyrirtækið hið ofurnútímalega Cepa 21 voru meðal vínhúsa sem sótt voru heim í heimsókn til Ribera síðastliðið vor og meðal vínanna sem þá voru smökkuð var 2012 árganurinn af einfaldasta víninu þeirra, Finca Resalso. Þetta er að öllu leyti virkilega gott vín, mikið um sig eins og vínin frá Ribera del Duero. Frábært með öllu rauðu kjöti og á virkilega fínu verði miðað við gæði. Bestu rauðvínskaupin eru því Emilio Moro Finca Resalso 2012.

La LusÞað eru svo nokkur vín sem vel gætu gert tilkall til þess að vera vín ársins 2013 hjá Vínótekinu. Það hafa mörg frábær vín verið smökkuð. Marques Casa Concha Chardonnay 2011, Peter Lehmann Stonewell 2009, Librandi Duca San Felice 2010, Arnaldo Caprai Collepiano 2008 og Baron de Ley Siete Vinas 2005, Það vín sem varð fyrir valinu er hins vegar norður-ítalskt rauðvín frá Piedmont. Banfi er merkilegt vínhús, sem fyrst og fremst er þekkt fyrir Brunello-vínin sí,n frá Castello Banfi. Það hefur hins vegar verið að færa út kvíarnar, m.a. með kaupum á minni vínhúsum og nokkur mjög forvitnileg vín frá Banfi komu hingað til lands ár árinu. Það sem heillaði mig hvað mest er vínið La Lus. Það er gert úr þrúgunni Albarossa, sem er krossblöndun úr Barbera og Nebbiolo. Þetta er spennandi vín, athyglisvert, afskaplega vel gert og gott og á frábæru verði. Allt þetta varð til þess að La Lus 2010 er vín ársins 2013.

Deila.