Jólabjórarnir 2014

Það eru á þriðja tug jólabjóra sem að komu í verslanir nú fyrir jólin og þeir eru kannski ekki eins margir og þeir eru ólíkir – en þeir eru vissulega margir hverjir ansi ólíkir. Og eins og alltaf vaknar upp spurningin: Hvað er jólabjór? Það hlýtur að eiga að gera þá kröfu til „jólabjóra“ að þeir séu á einhvern hátt öðruvísi en þeir bjórar frá sama framleiðanda sem að seldir eru árið um kring. Jólabjór getur ekki bara verið nýjar umbúðir heldur hlýtur jólabjórinn að teljast vera öðruvísi bjór. En hvað er það þá sem gerir bjór „jólalegan“ ? Og þar fara málin að flækjast. Margir jólabjórar eru örlítið dekkri, örlítið sætari og oft er einhverjum kryddum blandað saman við eða þá að bruggmeistararnir leika sér með malt og estera til að búa til bragðmeiri bjór en alla jafna. En svo eru auðvitað margir af bestu jólabjórunum að spila í annarri deild en lagerbjórar, þetta eru  gjarnan magnaðir saison, IPA eða porterar.

Bjórsmakkhópur Vínóteksins kom saman á nafnlausa veitingastaðnum á Hverfisgötu 12 í vikunni og smakkaði sig í gegnum flóruna í jólaflokknum þetta árið, samtals var 21 bjór smakkaður.  Í hópnum voru þeir Steingrímur Sigurgeirsson, ritstjóri Vínoteksins, Haukur Heiðar Leifsson, bjórgúrú Vínóteksins, Ragnar Freyr Rúnarsson læknir og bjórbloggari á Bjórbókinni.net,  Gunnar Karl Gíslason, veitingamaður á Dill, Gunnar Óli Sölvason, bjóráhugamaður og félagi í Fágun og Ólafur Ágústsson, matreiðslumaður og veitingastjóri á KEX.Við skiptum smökkuninni í tvennt. Fyrst voru smakkaðir hefðbundari bjórar og siðan ölfugri bjórar og sérbjórar. Það er ekki hægt að meta þessa bjóra á sömu forsendum en allir fengu þeir einkunn á bilinu 0-5 en þó þannig að einkunnin endurspeglar alltaf þann flokk sem bjórinn er að keppa í.

Allir bjórar voru smakkaðir blint – það er smakkhópurinn vissi ekki hvað verið var að smakka fyrr en að eftir að þeir höfðu sagt álit sitt á honum. Stundum voru menn sammála um einkunn, stundum voru menn mjög ósammála og látum við það endurspeglast í bili einkunnargjafar hér að neðan.

Það var ýmsilegt sem kom á óvart. Jólagullið frá Ölgerðinni er mjög sterkt í ár en Jóla Kaldi hafði þó vinninginn í flokki „minni bjóra“.. Bokkarnir frá Viking og Einstök komu ágætlega út og Steðji kemur inn með sinn líklega besta bjór frá upphafi: Almáttugur Steðji.

Og svo Danirnir, vá hvað þeir voru flottir, þótt sumir séu vissulega bruggaðir í Belgíu eins og Snowball.

En hér er yfirlit yfir smökkunina:

Jóla Thule var bjór sem fékk ummælin að hann „færi örugglega vel í markhópinn“, smá sæta, létt karamella, þægilegur og einfaldur. Hins vegar ekkert sérstaklega langur, búinn þegar að hann fer af tungu.

Einkunn: 2-2,5

Gæðingur Jólabjór einkenndist af súkkulaði og töluverðu malti, beiskur, minnir svolítið á enskt öl, en samt að sumra mati „stíllaus“. Mjög „drekkanlegur“, þægilegur en ekki alveg í jafnvægi.

Einkunn: 2,5

Jóla Tuborg var málmkenndur út í gegn og hópurinn taldi það löst á bjórnum að þarna væru enginn jólaeinkenni. Þetta væri bara lager-bjór með smá beiskum blæ. Einn vildi þó taka fram að „hver sopi kallaði á annan“.

Einkunn:1,5-2

Jólakaldi var fallegur í glasi hafði angan af reyk og lakkrískenndu malti, þægilegur í nefi, þurr þéttur og flottur lager, sem fer aðeins út fyrir hinn hefðbundna ramma.

Einkunn: 3-3,5

Ölvisholt Jólabjór var kryddaður, nokkur negull, skemmtilegur í nefi og jólalegur en þunnur í munni og beiskur, ber ekki kryddin.

Einkunn: 1,5

Jólagull var flottur á lit, svolítið hveitibjórslegur  í nefi ávaxtaríkur með votti af perum og banönum, smá ryð, smá málmur. Öl í ágætis jafnvægi, prýðis jólabjór.

Einkunn: 3

Víking Jólabjór hafði svolítið smjörkenndan keim, hefðbundinn venjulegur bjór, án nokkurra jólalegra einkenna.

Einkunn: 1

Danski bjórinn Harboe Julebryg var sætur, einhver nefndi maís, smjörkenndur keimur.

Einkunn: 0,5

Viking Jólabokk er dumbrauður, flottur í glasi, milt nef en þéttur í munni. Nokkur sæta en líka góð beiskja til að vinna á móti henni.

Einkunn: 2,5-3

Ýlir frá Gæðingi er bjór í ómerktri dós. Ávaxtaríkur bjór í nefi, appelsínur, “fáránlega mikil appelsína“ að sumra mati, tað, ölkenndur. Einhverjir upplifðu smá 80s nostalgíu með nammihlaupi og bjórinn var talinn lítið karbaður, sumir sögðu bragðlítill. Mjög skiptar skoðanir.

Einkunn: 1,5-3,5

Steðji jólabjór einnkendist af lakkrís, smá greni og „blússandi lakkrís í eftirbragði“. Ágætis beiskja, mjör einfaldur með smá tvisti.

Einkunn: 2-2,5

Brew Dog Santa Paws er nokkuð dökkur, sulaður laukur, dökkur ristaður Porter-fílingur, mikið eftir bragð og selta í lokin. Kaffi, ofsalega þurr, kryddaður, allspice-fílinugr. Skemmtilegur.

Einkunn: 2,5-3

Jólamalt er bjór sem hefur átt undir högg að sækja hjá smakkhópnum á síðustu árum, enda óneitanlega sér á parti og ekki allra og fór ekki fram hjá neinum hvaða bjór væri um að ræða þótt smakkið væri blint. Í nefi fundu menn gerlykt, sætar piparkökur, þurrari en verið hefur en samt mjög, mjög sætur.

Einkunn: 0,5

Einstök Doppelbock  var svolítið flatur í nefi, vantar eitthvað uppá. Bokkar þurfa að vera svolítið skarpari til að vega upp a móti áfenginu, samt nokkuð „easy“ bjór miðað við áfengismagn.

Einkunn: 2-2,5

Almáttugur Steðji var með töluverðan reyktan keim, jafnvel hangikjöt, ferskur, svolítið „crisp“. Í nefi líka bruni, lakkrís og ristaðar hnetur. Byrjar vel en náði að sumra mati ekki alveg að halda sér út að endamörkum, þungur lakkrís situr eftir í munni.

2,5-3,

Ölvisholt Jóli var með töluverðan negul í nefi, einn sagði „kryddslys“ annar „eins og Stúfur á sterum“, í munni léttur þrátt fyrir áfengið og nær ekki að vega móti kryddinu – en… þrátt fyrir allt jólalegur.

Einkunn: 0,5-1

Mikkeller Hoppy Lovin Christmas reyndist algjör ávaxtaboma, mikið af mandarínum, orð sem voru notuð voru „yndislegur,“ og „dásamlegur“ og „meirháttar“. Smakkhópurinn eiginlega þagnaði og fór að njóta….

Einkunn: 4-4,5

Brew Dog Hoppy Christmas  hélt áfram á svipaðri braut, greni, greip, rosalega flottur bjór. Svalandi og ansi mikið fönk, flott beiskja. „Mjög, mjög góður“ var dómurinn.

Einkunn: 4

Þvörusleikir var dökkrauður með angan af greipaldin, citra, mandarínuberki og eik. mjög flottur bjór… að flestra mati. Hér skiptist hópurinn aðeins.

Einkunn: 2,5-3,5

To Øl Snowball var bjór þar sem fyrsta kommentið var „geðveikur bjór“. Nokkur appelsína, þurr, ferskur, smá brettanomyces, mildur, „hefur allt“. Bjór til að setjast niður með eftir jólamáltíðina og bara njóta, njóta.

Einkunn: 4-4,5

Mikkeller Red and White Christmas er dökkur og mikill bjór, blanda af bresku rauðöli og belgískum witbier, vanilla í nefi, nokkuð ávaxtaríkur, beiskur, humlaður Æðislegur bjór.

Einkunn: 3,5-4

Deila.