Það er greinilegt á viðbrögðunum við greininni um argentínsku grillmenninguna sem lesa má með því að smella hér að margir Íslendingar eru hrifnir ekki bara af grilluðum nautasteikum heldur einnig grillsósunni Chimicurri.
Það eru til fjölmargar útgáfur af chimicurri. Sósan tekur breytingum eftir svæðum Argentínu og raunar má segja að rétt eins og með pestó á Ítalíu eigi hver einasta fjölskylda sína útgáfu af sósunni.
Einn lesandi síðunnar sendi þessa frábæru uppskrift að chimicurri, sem er ögn flóknari en sú sem var að finna í Argentínu-greininni og jafnframt bragðsterkari. Það má kannski segja að þetta sé chimicurri fyrir lengra komna sem láta sér ekki bregða þótt mikið sé af hvítlauk og chili.
En þetta þarf í sósuna, mælieiningarnar eru í amerískum bollum en ef mæliglasið ykkar sýnir ekki þær einingar er hægt að miða við að einn bolli sé 240 ml, hálfur bolli því 120 ml og fjórðungs bolli 60 ml.
- 1 bolli vatn
- 1 heill hvítlaukur
- 1 bolli söxuð fersk flatlaufa steinselja
- 1 bolli saxað ferskt óreganó
- ½ bolli góð ólívuolía (extra virgin)
- ¼ bolli rauðvínsedik
- 2 tsk chili flögur eða 1 tsk cayennepipar
- 1 tsk salt
Hitið vatnið að suðu og bætið saltinu út í. Hrærið þannig að það leysist alveg upp. Látið kólna.
Hreinsið utan af hvítlauknum og rífið hann fínt. Þetta er hægt að gera varlega í matvinnsluvél og passa upp á að hann maukist ekki. Setjið í skál.
Myljið steinseljuna og óreganólaufin með sambærilegum hætti. Hrærið saman við hvítlaukinn ásamt chili flögunum.
Pískið edikið saman við. Pískið næst olíunni saman við. Loks er saltvatninu hrært saman við.
Hellið sósunni í lokað ílát og setið í ísskáp. Best er að láta hana standa í um sólarhring áður en hún er notuð til að bragðið renni vel saman. Chimicurri má geyma í ísskáp í 2-3 vikur.
Þessi sósa er frábær með góðum grilluðum nautasteikum, t.d. Ribeye og bökuðum kartöflubátum.