Bandarískir borgarar

Það er enginn máltíð bandarískari en borgarinn – og þá er ég ekki að tala um skyndibitaborgara heldur alvöru heimtilbúna borgara grillaða úti í garði í sumarblíðunni.  Það er líka goðsögn að borgarar þurfi að vera eitthvað sérstaklega óhollir. Ekta borgarar eru gott nautakjöt sem búið er að hlaða á fullt af grænmeti og ramma inn með örlitlu brauði og síðan er auðvitað hægt að láta auka salat duga sem meðlæti og sleppa frönskunum.

Kosturinn við að gera sína eigin borgara er ekki bara að maður veit nákvæmlega hvaða hráefni fer í þá heldur einnig að maður getur gert þá nákvæmlega samkvæmt sínum eigin smekk og í þeirri stærð sem maður kýs.

Hér er miðað við alvöru 250 gramma borgara og uppskriftin fyrir fjóra slíka

  • 1 kg af góðu nautakjöti t.d. sirloin. (OK, það má líka kaupa tilbúið hakk)
  • 1 laukur
  • 1 egg
  • 2 msk. BBQ-sósa
  • 1 dl af fínt muldu brauði eða brauðraspi
  • Cayennepipar
  • Kóríander-krydd
  • Paprikukrydd
  • Salt

Byrjið á því að hakka kjötið. Það má auðveldlega gera t.d. með hakkavélinni fyrir Kitchen Aid-hrærivélina. Það er mikilvægt að hakka kjötið eins gróft og vélin leyfir, við erum ekki að fara að gera borgara úr kjötfarsi.

Saxið laukinn mjög fínt og blandið honum saman við hakkið. Bætið við BBQ-sósunni (það má líka nota t.d. Worchestershire-sósu) og kryddið hakkið eftir smekk t.d. með Cayennepipar, kóríander- og papriku-kryddi og teskeið af salti. Ekki krydda of mikið, það verður ekki aftur snúið.

Best er að nota hendurnar þegar maður blandar þessu öllu saman.

Pískið eggið í skál og hrærið saman við. Bætið loks fínu brauðmylsnunni eða raspinu saman við. Eggið og brauðmylsnan gegna því hlutverki að binda kjötið saman þannig að borgarinn molni ekki í sundur á grillinu.

Þegar blandan er tilbúin er hægt að taka smá klípu og steikja til að tékka af að bragðið sé eins og maður vill hafa það.

Setjið skálina með kjötinu í ísskáp í nokkrar klukkustundir, þá verður auðveldara að móta borgarana. Þegar kjötið er orðið kalt er komið að því að búa til sjálfa borgarana. Skiptið kjötinu í fjóra skammta (eða fleiri ef þið viljið minni borgara) og pressið kúlu úr hverjum skammti. Það er ágætt að nota 1-2 mínútur á hverja kúlu. Þegar kúlurnar eru tilbúnar pressið þið þær loks í borgarastærð, annað hvort með sérstakri hamborgarapressu ef þið eigið slíka eða þá með því að þrýsta lófanum ofaná kúluna þar til borgarinn nær þeirri lögun sem þið viljið.

Penslið borgarana með smá olíu og setjið á grillið. Þegar þeir eru tilbúnir ýtið þið þeim til hliðar á grillinu til að halda þeim heitum og ristið þær hliðar á hamborgarabrauðunum sem snúa að borgurunum.

Að sjálfsögðu notum við heimabökuð hamborgarabrauð. Smellið til að sjá uppskrift.

Þá er hægt að byrja að hlaða borgarann. Til að taka bandaríska fílinginn alla leið er best að smyrja annan hlutann af brauðinu með majonesi (majones í amerískum stíl á borð við Hellman’s hentar betur í svona en hið íslenska) og hinn hlutann með sinnepi t.d. Dijon-sinnepi. Bætið við niðursneiddum tómötum, rauðlauk og salatblöðum.

Berið fram með fersku salati og frönskum kartöflum eða jafnvel enn frekar heimatilbúnum kartöflubátum.

Svona góða borgara er jafnvel hægt að drekka rauðvín með og þá að sjálfsögðu bandarískt, t.d. kalifornískt Cabernet eða Zinfandel.

 

 

Deila.